Stjórnendur Icelandair komnir í takt við starfsbræður sína vestanhafs

Hjá Icelandair var búist við að bandarísk flugmálayfirvöld myndu votta breytingar á hugbúnaði MAX þotanna um miðjan þennan mánuð. Það gekk ekki eftir. Nú hefur félagið boðað breytingar á flugáætlun sinni lengra fram í tímann líkt og stjórnendur amerískra flugfélaga höfðu gert fyrir nokkru síðan.

Ein af MAX þotum Icelandair. Mynd: Boeing

Upphafleg sumaráætlun Icelandair byggði á því að félagið hefði til umráða níu Boeing MAX þotur. Allar flugvélar af þessari gerð voru kyrrsettar um miðjan mars í kjölfar flugslysa í Eþíópíu og Indónesíu sem kostuðu 346 manns lífið. Á þeim tíu vikum sem liðið hafa frá því að flugbannið var sett á hafa stjórnendur Icelandair í þrígang gefið út nýjar tímasetningar fyrir mögulega endurkomu þotanna.

Fyrst voru gerðar breytingar á sumaráætluninni fram í miðjan júní en sá frestur var svo framlengdur um einn mánuð þann 3. maí sl. Þremur dögum síðar fullyrti Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs félagsins, á opnum afkomufundi Icelandair, að tæknilega væri búið að leysa allt það sem kom upp í flugslysunum tveimur. „Sú lausn verður vottuð af amerískum flugmálayfirvöldum fyrir miðjan maí. Það er í raun og veru ekkert nýtt sem hefur komið upp síðan í byrjun apríl hvað varðar frekari vandamál með vélarnar,“ sagði Jens.

Nú liggur fyrir að bandarísk flugmálayfirvöld vottuðu ekki MAX þoturnar um miðjan maí og reyndar var það fyrst á fimmtudaginn í síðustu viku sem Boeing flugvélaframleiðandinn sagðist hafa lokið við hugbúnaðaruppfærsluna. Í gærkvöld greindi forstjóri bandarísku flugöryggisstofnunarinnar hins vegar frá því að Boeing hefði hætt við að afhenta henni þessa breytingu á MCAS-búnaðinum, sem talinn er hafa valdið slysunum, eftir að stofnunin gerði athugasemdir við hana. Í kjölfarið gaf Icelandair út að félagið ætlaði að gera breytingar á sinni flugáætlun fram í miðjan september sem yrði til þess að sætisframboð myndi dragast saman um fimm af hundraði.

Þetta er þriðja breytingin á sumaráætluninni frá því að MAX þoturnar voru kyrrsettar. Stjórnendur flugfélaga eins og Air Canada, Southwest og American Airlines ákváðu strax í apríl að gera breytingar á áætluninni fram í ágústlok. Í tilkynningu frá American Airlines og Southwest sagði að þó búist væri við að þoturnar færu í loftið fyrr þá hefði flugáætluninni verið breytt út sumarið svo starfsmenn og farþegar þyrftu ekki að efast um ferðaplön sín á þeim tíma sem flestir eru á ferðinni.