Tekjur Isavia á hvern rútufarþega hækka

Það er orðið dýrara að nýta sér sætaferðir til og frá Leifsstöð.

Mynd: Túristi

Flugfarþegar þurfa í dag að borga nærri fimmtungi meira fyrir farið með Flugrútunni eða Airport Direct frá Keflavíkurflugvelli. Stakt fargjald hjá Flugrútunni kostar orðið 3.500 krónur en 6500 kr. ef keyptur er miði báðar leiðir líkt og Vísir greinir frá. Hjá Airport Direct, sem Hópbílar reka, er stakur miði á 3.590 krónur en borga þarf þrjú þúsund krónur í viðbót fyrir far fram og til baka.

Bæði fyrirtæki hafa hækkað verðskrár sínar nýverið og hefur Vísir það eftir Birni Ragnarssyni, forstjóra Kynnisferða, sem reka Flugrútuna, að hækkunin skrifist aðallega á hærri launakostnað, hækkandi olíuverð og minni eftirspurn í kjölfar gjaldþrots WOW air.

Hvað sem þessu breyttu aðstæðum líður þá þurfa Kynnisferðir engu að síður áfram að greiða Isavia 41 prósent af andvirði hvers farmiða sem fyrirtækið selur í ferðir sínar frá Keflavíkurflugvelli. Hópbílar greiða Isavia þriðjung af sínum sölutekjum sem er í takt við niðurstöðu útboðs Isavia á einkarétti á afnotum af rútustæðunum beint fyrir utan Leifsstöð sem haldið var sumarið 2017.

Í kjölfar nýjustu verðhækkana þá hækkar sú krónutala sem Isavia fær á hvern farþega fyrirtækjanna umtalsvert eða um rúmar tvö hundruð krónur í báðum tilvikum. Af 3.500 króna fargjaldinu sem Kynnisferðir rukka í Flugrútuna þá þarf fyrirtækið að borga Isavia um þrettán hundruð krónur og Hópbílar greiða um ellefu hundruð krónur af 3590 kr. fargjaldinu til Isavia. Fyrirtækin tvö verða jafnframt að greiða að lágmarksþóknun árlega sem nemur um 180 milljónum í tilfelli Kynnisferða og um 130 milljónum hjá Hópbílum. Til viðbótar borga fyrirtækin 450 þúsund í leigu á bílastæðum í hverjum mánuði og greiða líka leigu fyrir sölubás inn í Leifsstöð.

Airport Express, sem Gray Line rekur, býður líka upp á reglulegar sætaferðir frá Keflavíkurflugvelli en fyrirtækið notast við stæði sem eru aðeins fjær flugstöðinni. Þar kostar stakt fargjald í dag 2450 krónur og aðspurður staðfestir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, að fargjaldið hjá þeim muni líka hækka. „Það verður þó vel samkeppnishæft,“ bætir hann við.