Umtalsvert færri erlendir ferðamenn

Í apríl fækkaði þeim erlendu ferðamönnum sem flugu frá landinu um 18,5 prósent. Bandaríkjamenn og Bretar áfram fjölmennastir þrátt fyrir mikinn samdrátt.

Mynd: Alex Lopz / Unsplash

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 120 þúsund í nýliðnum apríl eða um 27 þúsund færri en í apríl árið 2018, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkun milli ára nemur 18,5 prósent. Bandaríkjamenn og Bretar voru fjölmennastir í apríl með um 35 prósent brottfara. Bandaríkjamönnum fækkaði þó um 27 prósent milli ára og Bretum um 31,5 prósent samkvæmt því sem segir í frétt á vef Ferðamálastofu. Frá áramótum nemur samdrátturinn í fjölda erlendra ferðamanna 7,9 prósentum miðað við sama tíma í fyrra.

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í apríl í ár tilkomnar vegna Bandaríkjamanna og Breta og samtals voru brottfarir þessara tveggja þjóða 35 prósent af heildinni. Þjóðverjar voru þriðja fjölmennasta þjóðin í hópi ferðamanna hér á landi en þeim fækkaði sömuleiðis eða um nærri fimm af hundraði. Pólverjar eru í fjórða sæti en eins og áður hefur verið bent á þá eru útlendingar, búsettir á Íslandi, taldir sem ferðamenn í könnuninni. Eins hefur það komið fram í máli forsvarsmanna Keflavíkurflugvallar að farþegar Wizz Air, sem flýgur hingað frá 5 pólskum borgum, nýta sér töluvert Ameríkuflug frá Íslandi og eru því í raun tengifarþegar þó margir þeir séu taldir sem ferðamenn.