Upplýsa ekki um nöfn umsækjenda

Í dag rennur út frestur til að sækja um stöðu forstjóra Isavia. Þó fyrirtækið sé opinbert hlutafélag þá verða nöfn umsækjenda ekki opinberuð.

Mynd: Isavia

Það er Isavia sem rekur alla flughafnir landsins og hjá fyrirtækinu vinna hátt í fjórtán hundruð manns. Forstjóri þess, Björn Óli Hauksson, lét hins vegar af störfum um páskana og í dag rennur úr frestur til að sækja um stöðuna. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá verða nöfn umsækjenda ekki birt opinberlega öfugt við það sem tíðkast hjá hinu opinbera.

Það er Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sem fer fyrir hlut ríkisins í Isavia og er stjórn þess skipuð fulltrúum fimm þingflokka. Stjórnarformaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins er Orri Hauksson, forstjóri Símans, og varaformaður er Matthías Imsland, fulltrúi Framsóknar. Aðrir í stjórn eru Valdimar Halldórsson frá VG, Píratinn Eva Pandora Baldursdóttir og Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins.