Uppsagnir vegna samdráttar á Keflavíkurflugvelli

Starfsmönnum Isavia fækkar og dregið úr ráðningu sumarstarfsmanna.

Mynd: Isavia

Í dag tilkynnti Isavia á fundum með starfsmönnum að félagið hafi gripið til uppsagna á Keflavíkurflugvelli í kjölfar brotthvarfs Wow air. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að um sé að ræða starfsmenn sem starfa meðal annars við öryggisleit og farþegaþjónustu.

„Uppsagnirnar ná til 19 starfsmanna og til viðbótar býðst 15 starfsmönnum lægra starfshlutfall. Áður hafði verið dregið úr sumarráðningum hjá Isavia ásamt því að fjölmörgum fyrirhuguðum ráðningum hafði verið frestað og breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi vaktakerfa. Þessar aðgerðir hafa þegar náð til ýmissa starfsstöðva Isavia, þar á meðal til skrifstofustarfa,“ segir í tilkynningu.

Ástæðu aðgerðanna má aðallega rekja til brotthvarfs Wow air í mars síðastliðnum en einnig hefur breytt flugáætlun Icelandair í kjölfar kyrrsetninga á MAX vélum Boeing haft áhrif. „Umsvif í þjónustu vegna millilandaflugs eru minni en áætlanir gerðu ráð fyrir, því er óhjákvæmilegt annað en að grípa til þessara aðgerða.“

Það sem af er ári hafa 14 prósent færri farþegar farið um Keflavíkurflugvöll og eins hefur farþegum í innanlandsflugi fækkað.