Verkfallið kostaði SAS 8,5 milljarða

Vonin um að skandinavíska félagið yrði rekið með hagnaði í ár hefur veikst.

Rickard Gustafsson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

Vikulöngu verkfalli flugmanna SAS lauk þann þriðja maí en þá höfðu stjórnendur þess orðið að fella niður um fjögur þúsund flugferðir. Ferðaplön hátt í fjögur hundruð þúsund farþega riðluðust vegna ástandsins og í nýbirtu uppjöri SAS kemur fram að verkfallið sjálft kostaði félagið um 8,5 milljarða króna. Þar með stefnir í að SAS verði ekki rekið með hagnaði í ár öfugt við það sem áður hafði verið reiknað með.

Þessi umskipti skrifast þó ekki aðeins á vinnudeiluna heldur líka þá staðreynd að olíuverð hefur farið hækkandi og sænska krónan, uppgjörsmynt SAS, hefur verið veik. Rickard Gustafsson, forstjóri SAS, segir í viðtali við Dagens Industri að jákvæðu fréttirnir séu hins vegar þær að stundvísi félagsins sé áfram góð, tekjur á hvert flugsæti hafi aukist og að markaðshlutdeildin hafi aukist.

Síðasti punkturinn gæti skrifast að hluta til á samdrátt hjá Norwegian, helsta keppinautnum. Sparnaðaraðgerðir þess félags hafa leitt til þess að félagið hefur fækkað flugferðum og nú fljúga til að mynda þotur þess ekki lengur til Íslands frá Stokkhólmi. SAS ætlar hins vegar að hefja Íslandsflug frá sænsku höfuðborginni í sumar en þó aðeins tímabundið.