Vildu ekki grípa til kyrrsetningar vegna skuldabréfaútboðs

Í sumarlok íhuguðu stjórnendur Isavia að grípa til kyrrsetningar á flugvél WOW. Þeir töldu þó heppilegra að leyfa félaginu að fara í umtalað skuldabréfaútboð. Gangurinn í því var góður miðað við fyrstu fréttir. Forsætisráðherra taldi Isavia vera með tryggingar fyrir vanskilum WOW.

Mynd: Sigurjón Ragnar

Úrskurður Héraðsdómur Reykjaness í deilu Isavia og flugvélaleigunnar Air Lease Corporation féll í dag. Orð dómsins hafa verið túlkuð sem ósigur fyrir Isavia en þrátt fyrir það segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri fyrirtækisins, að það þurfi ekki að vera niðurstaðan. Sigurbjörn er því ekki tilbúinn til að fullyrða að Isavia tapi langstærstum hluta af rúmlega tveggja milljarða kröfu sinni á WOW air.

Þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var spurð í fréttum Rúv út í skuld WOW við hið opinbera fyrirtæki, þremur dögum fyrir gjaldþrot flugfélagsins, þá fullyrti hún að Isavia væri með ákveðnar tryggingar fyrir skuldum WOW. „Hins vegar er það svo að við höfum sýnt félaginu skilning. Það hefur verið að ganga í gegnum erfiðleika,“ sagði Katrín en leiðrétti sig svo og sagði það vera Isavia sem sýnt hefði stöðu WOW skilning.

Túristi óskaði í fyrradag eftir upplýsingum frá upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar á því hvort skilja mætti þessi orð forsætisráðherra með þeim hætti að ráðamenn hefðu verið meðvitaðir um skuldasöfnun WOW hjá Isavia. Ekki hefur fengist svar við fyrirspurninni.

Í sjónvarpsviðtölum í kvöld sagði Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia og framkvæmdastjóri fjármálasviðs, að WOW hefði verið í vanskilum fyrri hluta síðasta árs og gert hefði verið ráð fyrir að félagið myndi gera upp skuldina um sumarið þegar lausafjárstaðan batnaði. Það hefði ekki gengið eftir og því hafi það verið til skoðunar að kyrrsetja flugvél WOW. Þá hafi verið að hefjast skuldabréfaútboð félagsins og stjórnendur Isavia mátu það svo að betra væri að leyfa WOW að fara í gegnum það ferli.

Vanskil jukust hins vegar hratt á þeim tíma því gera má ráð fyrir að reikningurinn sem Isavia sendi WOW, vegna notendagjalda í ágúst, hafi numið hátt í sex hundrað milljónum króna. Daginn áður en sá reikningur var gefinn út, þann 31. ágúst, birti Fréttablaðið hins vegar frétt með fyrirsögninni, „Skúli tryggt sér milljarða króna.“ Var þar vísað til skuldabréfaútboðs félagsins og fullyrti Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW, við Fréttablaðið að tekist hefði að fá breiðan hóp erlendra fagfjárfesta til þess að skrá sig fyrir stórum hluta útboðsins og stærð útgáfunnar yrði allt að 12 milljarðar króna. Á þessum tímapunkti var skuldin var Isavia um milljarður króna samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins í dag en sem fyrr segir bættust um sex hundrað milljónir við upphæðina daginn eftir jákvæðu tíðindin í Fréttablaðinu.

Hálfum mánuði síðar lauk skuldabréfaútboðinu og nam útgáfan rétt rúmlega sex milljörðum króna. Til viðbótar átti að selja skuldabréf fyrir 1,2 milljarða króna. Nú liggur hins vegar fyrir að umtalsverður hluti útgáfunnar voru viðskiptakröfur sem breytt var í skuldabréf og þar með fékk WOW air ekki nægjanlega mikið inn af nýju lausafé. Það er svo líklegast meginskýringin á því að Skúli Mogensen leitaði til forsvarsmanna Icelandair strax um mánaðamótin október-nóvember.

Í framhaldinu var gengið frá kaupum Icelandair á WOW air en þó með fyrirvörum. Og þessi kaupsamningur varð til þess að stjórnendur Isavia sýndu WOW air áfram þolinmæði líkt og kom fram í máli Sigurbjörns, starfandi forstjóri Isavia og framkvæmdastjóra fjármálasviðs, í fréttum í kvöld. Icelandair rifti hins vegar kaupunum á keppinautnum undir lok nóvember og þá tóku við nærri fjögurra mánaða samningaviðræður við Indigo Partners sem jafnframt urðu til þess að stjórnendur Isavia ákváðu að bíða og vona. Á þeim tíma hækkaði skuldin við Isavia og nam hún um 2,1 milljarði þegar WOW varð gjaldþrota í lok mars.

Miðað við úrskurð héraðsdóms í dag þá stefnir í að Isavia fái rétt um fjögur prósent af þessari kröfu greidda. Sú upphæð hefði orðið hærri ef stjórnendur Isavia hefðu kyrrsett aðra flugvél en TF-GPA því sú var nýtt í verkefni í Karabíska hafinu í vetur og þar með var aðeins hægt að rekja lítinn hluta af heildarskuld WOW til þeirrar flugvélar. Deiluaðilar hafa ekki gefið út hvort úrskurði héraðsdóms í dag verði áfrýjað.