Vorum eina Norðurlandaþjóðin sem fór oftar til Bandaríkjanna

Á meðan frændur okkar drógu ögn úr ferðum sínum vestur um haf þá fjölgaði íslenskum túristum í Bandaríkjunum.

New York er sú borg sem flestir ferðamenn frá Norðurlöndum fljúga til. Mynd: Hector Argüello / Unsplash

Frá Keflavíkurflugvelli er úrvalið af beinu flugi til Norður-Ameríku töluvert meira en frá stærstu flugvöllum Norðurlanda. Í dag verða til að mynda farnar tuttugu áætlunarferðir héðan til Bandaríkjanna á meðan brottfarirnar eru helmingi færri frá Kaupmannahafnarflugvelli, fjölförnustu norrænu flughöfninni.

Þessar tíðu samgöngur eru vel nýttar af landanum því samkvæmt nýjum tölum frá ferðamálaráði Bandaríkjanna, Discover America, þá fóru 73 þúsund Íslendingar í gegnum vegabréfaeftirlitið á bandarískum flugvöllum í fyrra. Það er aukning um tíund frá árinu á undan og til samanburðar þá voru ferðamenn frá Eystrarsaltslöndunum um 74 þúsund í fyrra en í löndunum þremur búa rúmar sex milljónir manna.

Miðað við stærð þjóðarinnar má segja að fimmti hver Íslendingur hafi heimsótt Bandaríkin í fyrra en þó ber að hafa í huga að einstaklingur með íslenskt vegabréf er talinn í hvert skipti sem hann kemur til landsins.

Á meðan Íslendingar fjölmenna í auknum mæli til Bandaríkjanna þá hafa frændþjóðirnar dregið úr ferðum sínum þangað. Sænskum, norskum og finnskum ferðamönnum þar í landi fækkaði um þrjá af hundraði í fyrra á meðan samdrátturinn í Bandaríkjareisum Dana var sáralítill eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Vegna falls WOW air þá hefur framboð á flugi til Bandaríkjanna dregist þónokkuð saman í ár og fjöldi bandarískra áfangastaða hjá Icelandair hefur fækkað því í sumar fljúga þotur félagsins ekki til Cleveland og Dallas. Ísland er aftur á móti eina norræna landið sem þrjú stærstu flugfélög Bandaríkjanna fljúga öll til.