28 prósent samdráttur á Keflavíkurflugvelli

Eftir fall helsta keppinautarins þá stendur Icelandair á ný undir ríflega sjö af hverju tíu brottförum til útlanda. Umferðin í síðasta mánuði var álíka mikil og í maí árið 2016.

Sumarvertíð nokkurra erlendra flugfélaga hér á landi hófst í lok maí og um leið fjölgaði áfangastöðunum sem hægt er að fljúga til beint frá Keflavíkurflugvelli. Mynd: Isavia

Umferðin um Keflavíkurflugvöll dróst verulega saman í síðasta mánuði því áætlunarferðum þaðan fækkaði um ríflega sjö hundrað eða um 28 prósent. Til samanburðar þá tóku þotur WOW air 830 sinnum á loft frá Keflavíkurflugvelli í maí í fyrra samkvæmt talningum Túrista. Það sem vegur aðeins upp á móti er að brottförum Icelandair fjölgaði um nærri tólf af hundraði í maí. Íslandsflug erlendu flugfélaganna var í nokkuð föstum skorðum en British Airways, easyJet og Norwegian drógu aðeins úr á meðan Finnair bætti við.

Þriðja hver áætlunarferð, til og frá landinu í maí í fyrra, var á vegum WOW air og félagið skilur því eftir sig stórt skarð. Vægi flugfélaganna sem eftir standa hefur þar með gjörbreyst og þannig er hlutdeild Icelandair, í brottförum talið, komin upp í 72 prósent sem er nákvæmlega sama vægi og félagið hafði í maí árið 2014. Á árunum sem eftir komu lækkaði hlutdeild Icelandair hins vegar hratt á kostnað WOW air.

Að jafnaði voru farnar áttatíu áætlunarferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli í maí í fyrra en meðaltalið fór niður 57 brottfarir að þessu sinni. Það er álíka fjöldi og í maí árið 2016. Þann mánuð komu hingað til lands rúmlega 124 þúsund erlendir ferðamenn eða fjórðungi færri en í maí í fyrra. Niðurstöður í talningu Ferðamálastofu í síðasta mánuði liggja ekki fyrir en gera má ráð fyrir að hlutfallsleg fækkun ferðamanna sé ekki eins mikil og nemur samdrættinum í fluginu. Ástæðan er sú að nú er samanlagt vægi erlendu flugfélaganna nokkru hærra og með þeim fljúga fáir tengifarþegar. Á sama tíma hefur hlutfall erlendra ferðamanna um borð í þotum Icelandair aukist á kostnað tengifarþega.