Ætla að fljúga fimm sinnum í viku til Tenerife

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian bætir í Íslandsflug sitt í vetur.

Mynd: Norwegian

Eftir fall WOW air er Norwegian það flugfélag sem er umsvifamest í farþegaflugi milli Íslands og Spánar og nú ætlar félagið að bæta ennþá meiru við. Frá lokum október munu þotur félagsins nefnilega fljúga frá Keflavíkurflugvelli til bæði Las Palmas á Kanarí og Tenerife.

Athygli vekur að Norwegian ætlar að fljúga fimm sinnum í viku til Tenerife og tvisvar í viku til Kanarí, á miðvikudögum og laugardögum. Hina dagana verður flogið til Tenerife. Þess ber að geta að í tilkynningu frá Norwegian segir að aðeins verði flogið til áramóta en í bókunarvél á heimasíðu flugfélagsins er hins vegar hægt að bóka beint flug frá Íslandi til Kanaríeyja út mars á næsta ári. Ódýrustu farmiðarnir, án tösku, eru á tæpar 13 þúsund krónur.

„Norwegian hefur náð sterkri stöðu á íslenska markaðnum og við erum ánægð með að vera leiðandi flugfélag í ferðum milli Íslands og Spánar,“ segir Magnus Thome Maursund, forstöðumaður hjá Norwegian í tilkynningu. Hann segist gera ráð fyrir að Spánverjar muni jafnframt nýta sér þessar flugleiðir. Það hefur þó verið raunin hingað til að nær aðeins Íslendingar fylla þoturnar sem flogið hafa hingað til Kanarí og Tenerife og þegar mest lét flaug WOW þrjár ferðir í viku til Tenerife. Nú ætlar Nowegian hins vegar fimm ferðir en þó á aðeins minni flugvélum.

Auk áætlunarferðanna til Kanaríeyja þá fljúga þotur Norwegian héðan til Madríd, Barcelona, Alicante, Ósló og Bergen.