Bæta við brottförum frá Kaupmannahöfn í vetur

Það er gert ráð fyrir tíðari ferðum til Íslands í vetrardagskrá SAS í Danmörku. Það er þó engin áform um að bæta fljúga þotum félagsins hingað frá Svíþjóð utan háannatíma.

Mynd: SAS

Kaupmannahafnarflugvöllur er sú erlenda flughöfn sem flestir nýta til að fljúga til og frá Íslandi. Og farþegar á flugleiðinni milli Íslands og höfuðborgar Danmerkur hafa síðustu ár getað valið á milli reglulegra ferða Icelandair, SAS og WOW air. Nú er það síðastnefnda horfið af markaðnum en þotur þess flugu daglega til Kaupmannahafnar síðastliðinn vetur.

Það er því bót í máli að nú sjá forsvarsmenn SAS tækifæri í tíðari brottförum til Íslands næsta vetur frá dönsku höfuðborginni. „Við erum glöð að sjá þennan virkilega góða áhuga á flugleiðinni,“ segir Mariam Skovfoged, blaðafulltrúa SAS, í svari til Túrista. Hún segir ætlunina að bjóða upp á nærri því daglegar brottfarir í vetur frá Kaupmannahöfn til Keflavíkurflugvallar en síðastliðinn vetur voru ferðirnar þrjár til fjórar í viku. Félagið fjölgaði einnig brottförum til Íslands nú í sumar eins og áður hefur komið fram. Var það gert áður en örlög WOW air lágu fyrir.

Auk Kaupmannahafnarflugsins þá flýgur SAS hingað frá Ósló allt árið um kring og í sumar ætlar félagið á ný að spreyta sig á sumarflugi frá Stokkhólmi. Það gerði SAS síðast fyrir sjö árum síðan en Skovfoged segir það ekki í kortunum að framlengja ferðirnar frá Arlanda flugvelli fram á haustið eða inn í veturinn.