Bjóða starfsfólki Iceland Travel launalaust leyfi

Söluferli á einni stærstu ferðaskrifstofu landsins fer í gang í haust og en á sama tíma býðst starfsfólki fyrirtækisins að minnka við sig.

Skjámynd: Iceland Travel

Frá og með haustinu stendur starfsfólki Iceland Travel til boða að draga úr vinnu eða fara í launalaust leyfi. Þessi leið er farin til að mæta fækkun verkefna hjá ferðaskrifstofunni samkvæmt svari frá Icelandair Group, móðurfélagi Iceland Travel. Fyrr í vikunni var tilkynnt að Hörður Gunnarsson, sem leitt hefur Iceland Travel í nærri áratug, myndi láta af störfum og við honum tekur Björn Víglundsson.

Í haust er svo ætlunin að hefja söluferli á fyrirtækinu en það hefur áður komið fram í máli forsvarsmanna Icelandair Group að rekstur ferðaskrifstofunnar hafi verið erfiður undanfarið og áfram séu blikur á lofti.

Iceland Travel hefur lengi verið einn stærsti skipuleggjandi á Íslandsferðum og fyrir nærri tveimur árum síðan stóð til að sameina fyrirtækið við ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line. Sá samruni var gerður með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og þegar hún lá fyrir var hætt við sameiningu. Aldrei hefur það þó verið gefið upp hvort það var annað fyrirtækið eða bæði sem stóðu ekki nógu vel á þeim tímapunkti.