Einn af lykilstarfsmönnum Skúla til Icelandair

Daníel Snæbjörnsson hefur verið ráðinn til Icelandair en hann fór áður fyrir leiðakerfi WOW air.

Mynd: Isavia

Rúmri viku eftir gjaldþrot WOW air kynnti Skúli Mogensen áform sín um að endurreisa flugfélagið ásamt sjö af  stjórnendum þess. Einn þeirra var Daníel Snæbjörnsson sem unnið hafði hjá WOW í fjögur ár og sá um leiðakerfi félagsins. Daníel hefur nú ráðið sig til Icelandair og hóf störf þar í maí.

Þetta staðfestir Ásdís Pétursóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari til Túrista. Hún segir að Daníel verði hluti af teymi sem fer með þróun leiðakerfis Icelandair en Andrés Jónsson tók nýverið við sem forstöðumaður þess sviðs.

Þar á undan var það Egill Almar Ágústsson, sem kom til Icelandair frá WOW air haustið 2017, sem fór fyrir leiðakerfi flugfélagsins. Hann sagði nýverið upp stöðu stöðu sinni og hefur störf hjá Lufthansa á næstu vikum.

Lítið hefur farið fyrir fréttum af fyrrnefndri enduruppbyggingu WOW air enda byggði planið, sem kynnt var í byrjun apríl, á því að nýtt félag gæti tekið við þotum sem forveri þess hafði til umráða. Gera má ráð fyrir allar þoturnar, nema sú sem Isavia kyrrsetti á Keflavíkurflugvelli, hafi núna verið leigðar í önnur verkefni.