Færri ferðamenn en þó miklu fleiri

Það flugu nærri fjórðungi færri ferðamenn frá Íslandi í maí í samanburði við sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er einnig verulegur ef miðað er við vorið 2018 en þróunin er önnur ef litið er lengra aftur tímann.

Curren Podlesny
Ferðamenn við Seljalandsfoss. Mynd: Curren Podlesny / Unsplash

Það voru farnar ríflega sjö hundruð færri áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli í maí. Það mátti því búast við verulegum samdrætti í fjölda erlendra ferðamanna í þeim mánuði og það kom líka á daginn þegar Ferðamálastofa birti talningu sínar í gær. Niðurstaðan var sú að erlendu ferðafólki fækkaði um 23,6 prósent eða um 39 þúsund farþega. Langmestu munar um nærri 20 þúsund færri bandaríska ferðamenn en þeir hafa verið langfjölmennastir í hópi ferðafólks hér á landi.

Ef litið er lengra aftur í tímann sést þó að fjöldi ferðamanna í nýliðnum maí var álíka og árið 2016 og langtum meiri en árin þar á undan. Og þegar aðeins er litið til Íslandsferða Bandaríkjamanna þá sést að hingað komu helmingi fleiri bandarískir túristar í maí en á sama tíma árið 2015 og nærri þrefalt fleiri en maí 2014.