Fjögur þúsund færri sæti til Íslands

Kanadíska flugfélagið Air Canada flýgur hingað til lands frá bæði Montreal og Toronto. Allt stefnir í að framboðið í sumar verður þó nokkru minna en í fyrra.

aircanada
Mynd: Air Canada

Auk Icelandair þá hafa flugfélögin Norwegian og Air Canada notað nýjar Boeing MAX þotur í flug til og frá Keflavíkurflugvelli. Vegna kyrrsetningar á þessari flugvélategund þá hafa stjórnendur þess síðastnefnda gripið til þess ráðs að nota Airbus A319 þotur frá dótturfélaginu Air Canada Roughe í ferðirnar hingað lands frá Montreal og Toronto í sumar.

Þessar breytingar koma fram í bókunarvél félagsins og með þeim fækkar sætunum í Íslandsflugi kanadíska flugfélagsins um nærri því fimmtung enda aðeins sæti fyrir 136 farþega í Airbus þotunum á meðan 169 komast með í Boeing MAX þotunum. Síðastliðið sumar og haust flaug Air Canada flaug 129 ferðir til Íslands samkvæmt talningu Túrista og þá hefur framboðið numið hátt í 22 þúsund sætum. Verði MAX þoturnar ekki komnar með flugleyfi þegar sumarvertíð kanadíska flugfélagsins lýkur hér á landi í október þá verður sætaframboðið í ár um ríflega fjögur þúsund sætum minna eða rétt um 17.500.

Auk Air Canada þá flýgur Icelandair til bæði Montreal og Toronto og það gerði WOW air líka. Brotthvarf þess síðarnefnda hefur þó ekki orðið til þess að flugfélaga heimamanna í Kanada hafa ákveðið að setja inn stærri þotur í stað hinna smáu Airbus A319. Öfugt við Icelandair þá flaug WOW air allt árið um kring til Montreal en miðað við áætlun Icelandair fyrir komandi vetur þá virðist félagið ekki ætla að fylla skarð keppinautarins í hinum frönskumælandi hluta Kanada.

Síðastliðið sumar og haust komu til Íslands rétt um 60 þúsund kanadískir ferðamenn og aðeins Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Bretar voru fjölmennari. Það eru hins vegar vísbendingar um að fjöldi kanadískra ferðamanna sé ofmetinn því þeir kaupa mun færri gistinætur hér á landi en hinar þjóðirnar sem eru fjölmennastar hér yfir sumarmánuðina. Skýringin á því kann að vera sú að flugsamgöngurnar milli Kanada og Evrópu, í gegnum Ísland, hafa verið mjög góðar síðustu ár eins og Túristi hefur áður vakið máls á. Kanadískir tengifarþegar sem skipta um flugfélag á Keflavíkurflugvelli á leiðinni yfir hafið eru nefnilega taldir sem ferðamenn á Íslandi þó þeir stoppi hér aðeins á milli flugferða.