Fleiri norrænar ferðaskrifstofukeðjur til sölu

Arion banki hefur tekið yfir ferðaskrifstofuveldi Andra Más Ingólfssonar. Ætlunin er að selja fyrirtækið sem fyrst.

Gjaldþrot Primera Air fór illa með ferðaskrifstofuveldi Andra Más Ingólfssonar á Norðurlöndunum. Mynd: London Stansted

Þegar flugfélagið Primera Air varð gjaldþrota í byrjun október voru allar ferðaskrifstofurnar, sem tilheyrðu móðurfélagi flugfélagsins, Primera Travel Group, færðar yfir í fyrirtækið Travelco Nordic sem skráð er í Danmörku. Það var að öllu leyti í eigu Andra Más Ingólfssonar líkt og gamla móðurfélagið sem skráð var hér á landi. Nú hefur Arion banki tekið yfir starfsemi Travelco Nordic samkvæmt tilkynningu. Bankinn tapaði um þremur milljörðum króna á gjaldþroti Primera air eins og áður hefur komið fram.

„Að­eins er um að ræða breyt­ingu á eign­ar­haldi en dag­leg starf­semi og þjón­usta ferða­skrif­stof­anna helst óbreytt. Mark­mið Arion banka er að tryggja áfram­hald­andi starf­semi ferða­skrif­stof­anna og hags­muni bank­ans,“ segir í til­kynn­ingu Arion banka.

Þar segir jafnframt að ætlunin sé að selja Travelco Nordic sem fyrst en líkt og Túristi greindi frá í febrúar þá höfðu nokkrir fjárfestar sýnt fyrirtækinu áhuga. Íslensku ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Terre Nova tilheyra samsteypunni.

Ferðaskrifstofur Arion banka eru ekki eina norræna ferðaskrifstofukeðjan sem er til sölu þessa dagana því Thomas Cook hefur leitað kaupanda að rekstri sínum á Norðurlöndunum frá því í fyrra. Nú í sumarbyrjun var tilkynnt að þýsk-skandinavískur fjárfestingasjóður myndi líklega bjóða í starfsemina en ekki hafa borist frekari fréttir af söluferlinu.