Flugið fyrir Icelandair kemur ekki niður á áætlun Air Iceland Connect

Systurfélögin munu áfram deila með sér einni Bombardier flugvél á meðan Boeing MAX þoturnar eru kyrrsettar.

Mynd: Air Iceland Connect

Til að fylla það skarð sem kyrrsetning Boeing MAX þotanna hefur valdið í flugflota Icelandair þá hefur félagið leigt eina af Bombardier flugvélum Air Iceland Connect til að ferja farþega nú í sumarbyrjun. Á þessu verður framhald á því á vef Routes Online segir að Bombardier flugvél Air Iceland Connect muni fljúga áætlunarferðir Icelandair til Dublin og Manchester fram í miðjan september. Á þeim tímapunkti geri áætlun Icelandair ráð fyrir að kyrrsetningu MAX þotanna hafi verið aflétt.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, staðfestir í svari til Túrista, að flugfélagið muni fljúga tvær ferðir í viku fyrir Icelandair til bæði Dublin og Manchester frá 15. júlí og fram til 15. september. Aðspurður um hvort þessi viðbót komi niður á flugáætlun Air Iceland Connect þá segir Árni að svo verði ekki. Ástæðan er sú að flugvélin sem notuð var í áætlunarflug Air Iceland Connect til Aberdeen og Belfast í fyrra er ennþá í flota félagsins.

Bombardier flugvélin er ekki eina leiguvélin sem Icelandair nýtir í flug til Bretlands og Írlands nú í sumar. Airbus A319 þota, sem félagið tók nýverið á leigu, er jafnframt notuð á þessum flugleiðum í fjarveru Boeing MAX þotanna. Þær voru kyrrsettar fyrir rúmum þremur mánuðum kjölfar flugslysa í Eþíópíu og Indónesíu sem kostuðu 346 manns lífið. Ennþá ríkir óvissa um hvenær þoturnar fá flugheimild á ný en flugáætlun Icelandair geri ráð fyrir að það verði ekki seinna en um miðjan september. Um svipað leyti rennur út leigutími þotanna sem félagið hefur nú til afnota til að brúa bilið sem MAX þotunnar skildu eftir sig.