Flýta ráðningu forstjóra eins og kostur er

Það eru þrjár vikur liðnar frá því að fresturinn til að sækja um stöðu forstjóra Isavia rann út.

Mynd: Isavia

„Viðtöl standa yfir og stjórn Isavia er að reyna að flýta ráðningu eins og kostur er,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi, aðspurður um stöðuna á ráðningu nýs forstjóra fyrirtækisins. Í dag eru þrjár vikur liðnar frá því að umsóknarfrestur rann út en Björn Óli Hauksson lét af starfi forstjóra um páskana eftir að hafa stýrt Isavia í um áratug.

Ekki var upplýst um hverjir sóttu um stöðuna sem mun vera í takt við þær reglur sem gilda um opinber hlutafélög.

Isavia á og rekur flugvelli landsins og það er Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sem fer með hlut ríkisins fyrirtækinu. Stjórn Isavia er í dag skipuð fulltrúum fimm þingflokka og tók Orri Hauksson, forstjóra Símans, við sem stjórnarformaður á ársfundi fyrirtækisins í mars síðastliðnum. Hann er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins en varaformaður stjórnar er framsóknarmaðurinn Matthías Imsland. Aðrir í stjórn eru Valdimar Halldórsson frá VG, Píratinn Eva Pandora Baldursdóttir og Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins.

Í Svíþjóð og Noregi er eignarhald flugvalla með sama hætti og hér á landi en þar tíðkast þó ekki að skipa stjórnir fyrirtækjanna pólitískt.