Fyrsta konan kjörin formaður stýrihóps flugleiðsögu á Norður-Atlantshafi

Hlín Hólm, deildarstjóri flugleiðsögudeildar Samgöngustofu, var kosin formaður stýrihóps flugleiðsögu á Norður-Atlantshafi til næstu fjögurra ára á fundi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) í París í gær.

Mynd: Isavia

Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðasögusviðs Isavia, hefur undanfarin 20 ár farið fyrir stýrihópnum en nú tekur Hlín við keflinu. Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að hlutverk stýrihópsins sé að annast eftirlit með gæðum flugleiðsöguþjónustu innan Norður-Atlantshafssvæðisins en það  spannar loftrýmið yfir Atlantshafinu frá norðurpól að 45 gráðum norðlægrar breiddar. Einnig leiðir hópurinn innleiðingu nýrrar tækni, vinnuaðferða og staðla fyrir flugleiðsögu.

„Hlín Hólm er deildarstjóri flugleiðsögudeildar Samgöngustofu. Samgöngustofa ber ábyrgð á skipulagi loftrýmisins í lofthelgi Íslands og því loftrými sem Ísland ber ábyrgð á. Einnig veitir Samgöngustofa starfsleyfi vegna flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar og hefur eftirlit með veitingu slíkrar þjónustu. Þessum verkefnum sinnir SGS í nánu samstarfi með starfsleyfishöfum, Isavia og Veðurstofu Íslands, sem og hagsmunaaðilum,“ segir í tilkynningu.

Aðildarríki stýrihópsins, sem Íslendingar veita áfram forstöðu, eru Bandaríkin, Kanada, Ísland, Noregur, Danmörk, Stóra Bretland, Írland, Frakkland og Portúgal.