Gera breytingar á flugáætlun vegna nýrra galla í MAX-þotunum

Vinna við að koma Boeing MAX-þotunum í loftið á ný fór út af sporinu í vikunni þegar nýr galli í stýrikerfi fannst.

Þrjár af Boeing MAX þotum Icelandair standa nú við verksmiðjur flugvélaframleiðandans. Mynd: SounderBruce / CreativeCommons 4.0)

Farþegaþotur af gerðinni Boeing 737 MAX voru kyrrsettar út um heim allan um miðjan mars eftir tvö mannskæð flugslys. Endanleg niðurstaða um tildrög þeirra liggur ekki fyrir en langlíklegast er talið að sérstökum stýribúnaði í vélunum, sem lækkar flug þeirra snögglega, hafi verið um að kenna.

Sérfræðingar Boeing hafa síðustu vikur unnið að lagfæringum á þessum tiltekna búnaði en nú hefur uppgötvast nýr hugbúnaðargalli í stýrikerfi vélanna. Frá þessu greindu bandarísk flugmálayfirvöld í gær og strax í kjölfarið gerðu þrjú af stærstu flugfélögum Bandaríkjanna breytingar á flugáætlun sínum fram í byrjun september. Þannig gerir uppfærð áætlun United flugfélagsins ráð fyrir um nítján hundruð færri flugferðum í ágúst vegna áframhaldandi kyrrsetningar MAX-þotanna.

Forsvarsmenn Icelandair gerðu í sumarbyrjun breytingar á áætlun félagsins fram í miðjan september og því ólíklegt að hið nýja flækjustig, í að koma MAX-þotunum í loftið á ný, kalli á frekari breytingar eins og staðan er núna. Dragist það hins vegar fram í árslok að fá flugheimild fyrir þoturnar, líkt og forstjóri Emirates flugfélagsins reiknar með, þá gæti það valdið umtalsverðri óvissu um vetraráætlun Icelandair en hún tekur gildi í lok október.