Gist­inætur álíka margar og árið 2017

Þegar aðeins er horft til kaupa erlendra ferðamanna á gistingu hér á landi þá hefur orðið samdráttur á fyrsta ársþriðjungi. Dvalartíminn hefur á sama tíma lengst lítillega.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Frá Reykjavík. Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Þróunin í fjölda gistinátta útlend­inga hér á landi hefur verið neikvæð í ár því þeim fækkaði samtals um 2,4 prósent fyrstu fjóra mánuði ársins samkvæmt gistinátta­tölum Hagstof­unnar. Aðeins er miðað við tölur sem ná yfir skráða gisti­kosti og þar með er fjöldi gist­inga hjá Airbnb og álíka síðum ekki meðtalin.

Samdrátt­urinn var mestur í ársbyrjun en sára­lítill í apríl sem gæti meðal annars skrifast á þá stað­reynd að pásk­arnir voru nú yfir miðjan apríl en ekki yfir mánað­armót líkt og í fyrra. Dval­ar­tíminn hefur líka mjakast aðeins upp á við en er þó ennþá nokkru styttri en hann var fyrir nokkrum árum síðan eins og sjá má á grafinu.

Það liggur ekki fyrir hver þróunin var í maí, hvorki þegar kemur að gistinóttum né ferða­manna­fjölda. En líkt og Túristi greindi frá í gær þá fækkaði flug­ferðum, til og frá landinu, veru­lega í maí og var fjöldinn álíka og fyrr þremur árum síðan.