Gistinætur álíka margar og árið 2017

Þegar aðeins er horft til kaupa erlendra ferðamanna á gistingu hér á landi þá hefur orðið samdráttur á fyrsta ársþriðjungi. Dvalartíminn hefur á sama tíma lengst lítillega.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Frá Reykjavík. Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Þróunin í fjölda gistinátta útlendinga hér á landi hefur verið neikvæð í ár því þeim fækkaði samtals um 2,4 prósent fyrstu fjóra mánuði ársins samkvæmt gistináttatölum Hagstofunnar. Aðeins er miðað við tölur sem ná yfir skráða gistikosti og þar með er fjöldi gistinga hjá Airbnb og álíka síðum ekki meðtalin.

Samdrátturinn var mestur í ársbyrjun en sáralítill í apríl sem gæti meðal annars skrifast á þá staðreynd að páskarnir voru nú yfir miðjan apríl en ekki yfir mánaðarmót líkt og í fyrra. Dvalartíminn hefur líka mjakast aðeins upp á við en er þó ennþá nokkru styttri en hann var fyrir nokkrum árum síðan eins og sjá má á grafinu.

Það liggur ekki fyrir hver þróunin var í maí, hvorki þegar kemur að gistinóttum né ferðamannafjölda. En líkt og Túristi greindi frá í gær þá fækkaði flugferðum, til og frá landinu, verulega í maí og var fjöldinn álíka og fyrr þremur árum síðan.