Heima­menn eignast flug­fé­lagið

Samkomulag hefur náðst milli Dana, SAS og landstjórnar Grænlands um breytt eignarhald á Air Greenland.

Flugvélar Air Greenland á flugvellinum í Kangerlussuaq. Mynd: Filip Gielda / Visit Greenland

Samgöngur um hið strjál­býla Græn­land byggja að miklu leiti á flugi og þar leikur Air Green­land stór hlut­verk. Og nú hafa heima­menn sjálfir tekið yfir flug­fé­lagið eftir að land­stjórn Græn­lands náði samkomu­lagi við danska ríkið og stjórn­endur SAS um kaup á saman­lögðu 62,5 prósent hlut þessar tveggja í fyrir­tækinu. Kaup­verðið nam um 8,5 millj­örðum króna sem þýðir að Air Green­land er metið á nærri fjórtán millj­arða króna. Til saman­burðar er mark­aðsvirði Icelandair í dag rétt um 55 millj­arðar kr.

Auk þess  að sinna innan­lands­flugi þá býður Air Green­land einnig upp á reglu­legt flug til Kefla­vík­ur­flug­vallar frá Nuuk og frá Kangerlussuaq flýgur þota félagsins jafnt og þétt til Kaup­manna­hafnar. Floti félagsins saman­stendur af 35 þyrlum og flug­vélum auk Airbus A330 breið­þotu.

Stærsta ferða­skrif­stofa Græn­lands er einnig í eigu Air Green­land og fyrir­tækið rekur auk þess hótel við Diskóflóa.