Heimamenn eignast flugfélagið

Samkomulag hefur náðst milli Dana, SAS og landstjórnar Grænlands um breytt eignarhald á Air Greenland.

Flugvélar Air Greenland á flugvellinum í Kangerlussuaq. Mynd: Filip Gielda / Visit Greenland

Samgöngur um hið strjálbýla Grænland byggja að miklu leiti á flugi og þar leikur Air Greenland stór hlutverk. Og nú hafa heimamenn sjálfir tekið yfir flugfélagið eftir að landstjórn Grænlands náði samkomulagi við danska ríkið og stjórnendur SAS um kaup á samanlögðu 62,5 prósent hlut þessar tveggja í fyrirtækinu. Kaupverðið nam um 8,5 milljörðum króna sem þýðir að Air Greenland er metið á nærri fjórtán milljarða króna. Til samanburðar er markaðsvirði Icelandair í dag rétt um 55 milljarðar kr.

Auk þess  að sinna innanlandsflugi þá býður Air Greenland einnig upp á reglulegt flug til Keflavíkurflugvallar frá Nuuk og frá Kangerlussuaq flýgur þota félagsins jafnt og þétt til Kaupmannahafnar. Floti félagsins samanstendur af 35 þyrlum og flugvélum auk Airbus A330 breiðþotu.

Stærsta ferðaskrifstofa Grænlands er einnig í eigu Air Greenland og fyrirtækið rekur auk þess hótel við Diskóflóa.