Helmingi færri milli Íslands og Edinborgar

Farþegaflutningar hingað frá höfuðborg Skotlands hafa dregist verulega saman í ár.

edinborg a
Frá Edinborg. Mynd: Visit Edinburgh

Síðustu ár hafa WOW air og easyJet boðið upp á reglulegar ferðir milli Íslands og Edinborgar. Íslenska félagið gerði hins vegar hlé á flugi sínu þangað síðastliðið haust og easyJet fækkaði ferðunum á sama tíma. Áhrifin af þessum samdrætti leyna sér ekki í farþegatölum frá breskum flugmálayfirvöldum því þær sýna að fyrstu fjóra mánuði ársins flugu rétt um 22 þúsund farþegar milli Keflavíkurflugvallar og Edinborgar. Á sama tíma í fyrra voru þeir um 42 þúsund og hlutfallslega hefur farþegum því fækkað um 48 prósent.

Icelandair hefur ekki blandað sér í samkeppnina um farþega í Edinborg og í staðinn einbeitt sér að flugi til og frá Glasgow. Þær ferðir nýttu rúmlega 28 þúsund farþegar sér fyrstu fjóra mánuði ársins. Það er smá viðbóta frá því í fyrra og gæti hún meðal annars skrifast á minna framboð af Íslandsflugi frá Edinborg. Ferðalagið frá Edinborg og út á flugvöllinn í Glasgow er nefnilega ekki svo langt.

Þrátt fyrir nálægðina gæti verið tækifæri í því fyrir Icelandair að bæta Edinborg við leiðkerfi sitt í vetur og þá ekki aðeins til að fá fleiri til að fljúga milli Íslands og skosku höfuðborgarinnar heldur líka til að fljúga fleirum til Skotlands frá Norður-Ameríku. Frá Edinborg takmarkast framboð á Ameríkuflugi yfir veturinn við New York en þá flýgur Icelandair til tíu bandarískra borga og þriggja í Kanada.