Icelandair bætir Airbus þotu við flota sinn

Nýjasta leiguvél Icelandair kemur ekki frá verksmiðjum Boeing í Bandaríkjunum.

Mynd: Icelandair

Flugfloti Icelandair hefur lengi aðeins samanstaðið af þotum frá Boeing flugvélaframleiðandanum. Nú verður hins vegar breyting á, í það minnsta tímabundið, því félagið hefur gengið frá leigu á Airbus þotu samkvæmt heimildum Túrista. Um að ræða þotu af eldri gerð og verður hún leigð með áhöfn enda þyrftu flugliðar Icelandair að fara í gegnum sérþjálfun til að fá leyfi til að fljúga eða starfa í farþegaþotu af annarri gerð en Boeing.

Icelandair, eins og fleiri flugfélög, hefur þurft að leigja þotur undanfarið til að fylla skarðið sem kyrrsetning á Boeing MAX þotum hefur valdið. Vélarnar voru kyrrsettar um miðjan mars og ennþá er ekki vitað hvenær þær fara í loftið á ný. Icelandair hefur af þeim sökum gert breytingar á flugáætlun sinni fram til fimmtánda september en núverandi sumaráætlun gerði ráð fyrir að félagið hefði níu Boeing MAX þotur í rekstri.

Eins og áður hefur komið fram þá eru flotamál Icelandair til framtíðar nú til skoðunar og forstjóri félagsins hefur sagt að til greina komi að kaupa þotur frá Airbus í stað Boeing.