Icelandair niður í 100. sæti

Íslenska flugfélagið hefur farið nokkuð hratt niður listann yfir bestu flugfélög heims að mati þeirra sem taka þátt í World Travel Awards.

Mynd: Icelandair

Þessa dagana kemur fagfólk í fluggeiranum saman á flugsýningunni í París og þaðan berast ekki aðeins fréttir af stórsamningum um kaup á nýjum Airbus og Boeing. Árlegur listi World Travel Awards yfir 100 bestu flugfélög heims var nefnilega birtur á sýningunni í gær og vakti hann athygli sem fyrr. Samantektin byggir nefnilega á ríflega 20 milljón svörum og mun þetta vera stærsta opinbera könnun sem gerð er meða flugfarþega.

Að þessu sinni var það Qatar Airways sem hneppti fyrsta sætið en það hundraðasta kom í hlut Icelandair. Hefur íslenska flugfélagið farið nokkuð hratt niður listann síðustu tvö ár. Í fyrra fór félagið nefnilega niður í 87. sæti en hafði verið í kringum áttugasta sætið á árunum á undan. WOW air náði aldrei inn á topplista World Travel Awards.

Á lista yfir tíu bestu flugfélög Evrópu eru aðeins að finna nöfn þriggja flugfélaga sem fljúga til Íslands. Það er Lufthansa, Austrian Airlines og British Airways. Aftur á móti komust Air Canada, Delta, United og American Airlines öll á lista yfir þau bestu í Norður-Ameríku en Keflavíkurflugvöllur er eina norræna flughöfnin sem er hluti af leiðakerfi þessara fjögurra stærstu flugfélög álfunnar.