Indigo að leggja drög að Atlantshafsflugi

Forstjóri Wizz Air segir að flugfélagið geti brátt farið að horfa lengra út í heim þegar kemur að nýjum áfangastöðum. Starfsbróðir hans hjá Frontier virðar einnig hugmyndir um að halda yfir til Evrópu.

wizz budapest
Mynd: Wizz Air

Möguleg fjárfesting Indigo Partners í WOW air í vetur var meðal annars talin eiga að greiða leið fyrirtækisins inn á markaðinn fyrir farþegaflug milli N-Ameríku og Evrópu. WOW air hefði þá orðið eins konar milliliður fyrir farþega flugfélags sem tengjast Indigo Partners, þ.e. Frontier frá Bandaríkjunum og hins austur-evrópska Wizz Air. Þessi sýn kom meðal annars fram í pistli í Forbes tímaritinu.

Þó ekkert hafi orðið úr fjárfestingunni í WOW air gæti styst í fyrstu skref Indigo Partners í reglulegu flugi milli Bandaríkjanna og Evrópu. Forstjóri Wizz Air gaf það nefnilega til kynna í vikunni að með tilkomu Airbus A321XLR þotunnar, sem Indigo hefur keypti fimmtíu eintök af, þá geti Wizz Air boðið upp á áætlunarflug frá Evrópu til Bandaríkjanna innan fárra ára. Stjórnendur Frontier, sem er með heimahöfn í Denver, eru líka farnir að skoða möguleika á að fluga yfir til Evrópu þegar þeir fá sinn skammt af Airbus þotunum sem Indigo pantaði.

Ef Wizz Air haslar sér völl í Ameríkuflugi þá gæti það komið hratt niður á vinsældum Íslandsflugs félagsins. Ástæðan er sú að umtalsverður hluti farþega Wizz Air, sem flýgur til Íslands frá Póllandi, Ungverjalandi og víðar, er fólk sem nýtir sem Leifsstöð til að tengja á milli flugferða tveggja ólíkra flugfélaga. Þetta hefur komið fram í máli forsvarsmanna Keflavíkurflugvallar. 

Og það eru ekki aðeins flugfélög sem tengjast Indigo Partners sem sjá fram á nýja tíma með tilkomu Airbus A321XLR. Stjórnendur AirBaltic eru líka farnir að skoða hversu langt vestur um haf þeir komast frá Riga þegar félagið hefur fengið sínar þotur af þessari langdrægu tegund. Air Baltic er óðum að losa sig við eldri Boeing 757 þotur og taka í gagnið Airbus 220 þotur og stefnir í að þessum skiptum ljúka einu ári fyrr en upphaflega var reiknað með.

Það stefnir því í að samkeppnin í  Ameríkuflugi frá Evrópu eigi eftir að þyngjast með tilkomu nýju Airbus þotunnar en ennþá liggur ekki fyrir hvort stjórnendur Icelandair hyggjast tryggja sér eintök af henni.