Indigo og ALC orðuð við nýja Airbus þotu

Í dag kynnti Airbus til leiks langdrægari farþegaflugvél sem gæti nýst í beint flug frá Íslandi til nokkurra þeirra áfangastaða sem WOW air varð að nota breiðþotur í.

Hin nýja Airbus A321XLR. Tölvuteikning: Airbus

Flugsýningin í París hófst í dag en hún er ein sú stærsta og fjölsóttasta í heimi. Í tilefni af opnun sýningarinnar svipti Airbus flugvélaframleiðandinn hulunni af nýjustu viðbótinni við A321 seríuna, Airbus A321XLR. Um er að ræða langdrægari og lengri þotur en Airbus A321neo en WOW air var fyrst evrópskra flugfélaga til að taka þess háttar þotu í gagnið, TF-SKY. Sú er í eigu bandarísku flugvélaleigunnar ALC sem á kyrrsettu WOW flugvélina á Keflavíkurflugvelli.

Forsvarsmenn ALC voru jafnframt þeir fyrstu sem gengu frá pöntun á hinni nýju Airbus þotu í París í dag. Samtals undirritaði félagið viljayfirlýsingu um kaup á eitt hundrað Airbus þotum og þar af 27 af nýju gerðinni. Í tilkynningu frá Airbus segir að ráðgert sé að fyrstu þoturnar verði afhentar árið 2023 og munu þær geta flogið um 8700 kílómetra eða um tvö þúsund kílómetrum lengri leið en A321neo.

ALC er þó ekki eina fyrirtækið sem tengdist WOW air sem sýnir nýju þotunum áhuga. Stjórnendur Indigo Partners, sem lengi skoðuðu kaup á stórum hlut í íslenska lággjaldaflugfélaginu, eru sagðir vera að skoða hinar langdrægu þotunni sem getur flutt allt að 244 farþega.

Það þyrfti heldur ekki að koma á óvart ef forsvarsmenn Icelandair, sem líka íhuguðu kaup á WOW air, séu einnig að skoða hið nýja útspil frá Airbus í París. Í haust er nefnilega von á niðurstöðu á mati sérfræðinga félagsins um hvort semja eigi við Boeing eða Airbus um kaup á þotum sem leysa eiga af hólmi hinar ríflega tuttugu ára gömlu Boeing 757 þotur sem hafa verið uppistaðan í flota Icelandair um árabil. Drægni þeirra flugvéla er um 7200 km sem er aðeins minna en Airbus A321LR komast en þær komu á markað í lok síðasta árs.

Á skýringamynd sem Airbus birtir á heimasíðu sinni í dag er Reykjavík einn þeirra áfangastaða sem notaður er til að sýna drægni XLR þotanna og er þar miðað við flug héðan til Houston í Bandaríkjum og Dubaí. Og miðað við að þoturnar komast um 8700 kílómetra ættu þær einnig að drífa héðan til Kaliforníu og jafnvel Nýju-Delí en WOW air nýtti breiðþotur í flug sitt til indversku borgarinnar og Los Angeles og San Francisco. Rekstur á breiðþotum var hins vegar einn þeirra þátta sem urðu WOW air að falli líkt og fram hefur komið í máli Skúla Mogensen.

Eftir fjögur ár verður þó hægt að fljúga héðan til þessara borga á minni þotum og sú staðreynd ætti að ýta undir áhuga stjórnenda Icelandair á A321 XLR þotunni. En þá er spurning hversu fljótir þeir verða að leggja inn pöntun eða hvort þeir reyni frekar að leigja þotu af ALC. Í ljósi dómsmál þess fyrirtækis við Isavia er ekki víst að þess háttar leigusamningur sé mögulegur.

Skýringamynd: AIRBUS