Indigo Partners kaupa nýju langdrægu Airbus þotuna

Líkt og útlit var fyrir þá hafa fyrrum viðsemjendur WOW air ákveðið að gera breytingar á flugvélapöntun sinni hjá Airbus.

Tölvuteikning af Airbus A321XLR sem kemur væntanlega er í loftið 2023. Mynd: Airbus

Flugfélög og flugvélaleigur halda áfram að tryggja sér eintök af hinni nýju Airbus A321XLR farþegaþotu. Sú er langdrægari en aðrar þotur af svipaðri stærð og mun þannig komast frá Keflavíkurflugvelli til Kaliforníu, Dubaí og jafnvel Indlands líkt og Túristi greindi frá á mánudag. Þar kom einnig fram að Indigo Partners, sem íhuguðu fjárfestingu í WOW air í vetur, væri orðað við kaup á þessum nýju þotum.

Nú er komið á daginn að þetta bandaríska fjárfestingafélag ætlar að kaupa fimmtíu slíkar og dreifa þeim á milli þeirra flugfélaga sem Indigo á hluti í. Flestar, eða tuttugu talsins, fara til Wizz Air sem er stórtækt í flugi til Íslands og gæti flugfélagið jafnvel hafið áætlunarflug frá starfstöðvum sínum í austurhluta Evrópu til borga eins og Boston, Toronto og New York. Indigo Partners á þegar inni stóra pöntun hjá Airbus og verður hluti af henni breytt á þann vega að félagið kaupir nú færri A320neo þotur.

Ráðgert er að hinar nýju Airbus A321XLR þotur verði fyrst teknar í gagnið árið 2023.