Írar ánægðastir á Íslandi

Íslandsdvölin fær hæstu einkunn hjá þeim ferðamönnum sem hingað komu frá Írlandi. Verðlagið hér á landi fær líka jákvæðari umsögn en í fyrra.

Mynd: Guus Baggermans / Unsplash

Ferðamannapúlsinn mældist í 84,6 stigum af 100 mögulegum í apríl sem er hækkun um eitt stig frá sama tíma í fyrra. Ferðamannapúlsinn er metinn út frá fimm undirþáttum: heildaránægju með ferðina, líkum á að mæla með Íslandi sem áfangastað, skynjun á gestrisni Íslendinga, hvort að ferðin hafi uppfyllt væntingar og hvort að ferðin hafi verið peninganna virði.

Í frétt á vef Gallup segir að þegar ferðamannapúlsinn er skoðaður eftir þjóðerni helstu ferðamannahópa megi sjá að ferðamenn frá Írlandi gáfu hæstu einkunn eða 89,2 stig. Ferðamenn frá Portúgal, Þýskalandi, Ítalíu og Ástralíu voru einnig meðal þeirra ferðamanna sem voru ánægðastir með Íslandsferðina í apríl.

„Stærsta breytingin frá sama tíma í fyrra er á því hvort ferðamenn upplifi að ferðin hafi verið peninganna virði, en sá undirþáttur fékk einkunnina 81,1 sem er nærri fjórum stigum hærra en í apríl í fyrra þegar einkunnin var 77,3 stig,“ segir í frétt Gallup. Þar kemur jafnframt fram að þættir eins og líkur á meðmælum, gestrisni og uppfylling væntinga hafi mælst ívið hærri í ár en heildaránægjan var þó lægri.