Isavia kolefnisjafnar eldsneytisnotkun

Þriggja ára samkomulag um að draga úr og kolefnisjafna losun sem tengist starfsemi á flugvöllum landsins.

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður kolefnissjóðsins Kolviðs, Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia, og Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs. Mynd: Isavia

Eldsneytisnotkun vegur þyngst í kolefnisspori Isavia og stærsta hluta notkunarinnar má rekja til þjónustu og viðhalds á flugbrautum og athafnasvæðum flugvalla. Nú hyggst fyritækið kolefnisjafna alla þessa eldsneytisnotkun og var þriggja ára samkomlag um slíkt undirritað í vikunni milli Isavia, Kolviðs og Votlendissjóðsins.

„Isavia hefur á síðustu árum lagt áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningu. „Árið 2015 var sett markmið um að lækka losun gróðurhúsalofttegunda um 29% á hvern farþega fyrir árið 2030. Í dag hefur Isavia þegar minnkað losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri sínum um tæp 40 prósent á farþega. Markmiðið verður því endurskoðað.“

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs, segir samninginn vera gott framlag til að draga úr og kolefnisjafna losun sem tengist flugstarfsemi.

„Isavia gengur fram fyrir skjöldu af fyrirtækjum í eigu ríkisins með þessum samningum,“ segir Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs, í tilkynningu. „Við hjá Votlendissjóði erum þakklát fyrir stuðninginn. Sjóðurinn verður búinn að kolefnisjafna allt magnið sem keypt er strax á þessu ári. Ávinningurinn er mikill. Til viðbótar við stöðvun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þá eru votlendisvistkerfin endurheimt og þannig stuðlað að líffræðilegum fjölbreytileika dýra, fiska og fugla í íslenskri náttúru.“

Við undirritun samninganna var einnig greint frá því að Isavia hefði lokið við annað skref í innleiðingu á kolefnisvottun ACA (Airport Carbon Accreditation) fyrir Keflavíkurflugvöll. Vottunarkerfi er í fjórum skrefum. Það var hannað af ACI, Alþjóðasamtökum flugvalla, sem Isavia er meðlimur að. Kerfið er sérstaklega sniðið að rekstri og starfsemi flugvalla.