Ísland dottið út af dagskrá Delta

Þrátt fyrir brotthvarf WOW air þá lítur út fyrir að stjórnendur bandaríska flugfélagsins sjá ekki tækifæri í að halda áfram að fljúga hingað allt árið um kring frá New York.

Mynd: Delta Air Lines

Í sumarbyrjun árið 2011 fór Delta Air Lines jómfrúarferð sína til Keflavíkurflugvallar og hefur allar götur síðan boðið upp á áætlunarflug hingað frá JFK flugvelli í New York. Fyrst um sinn var aðeins um að ræða sumarflug en síðustu þrjá vetur hefur Ísland jafnframt verið hluti af áætlun félagsins. Á því verður nú breyting því á heimasíðu flugfélagsins er í dag aðeins hægt að bóka ferðir til Íslands fram til tuttugasta október og svo ekki að nýju fyrr en þriðja mars á næsta ári.

Á þessu rúmlega fjögurra mánaða tímabili flaug Delta nærri sjötíu áætlunarferðir hingað til lands síðastliðinn vetur samkvæmt talningum Túrista. Og gera má ráð fyrir að flugfélagið hafi þá flutt átta til níu þúsund bandaríska ferðamenn. Það jafngildir um það bil einum af hverjum ellefu Bandaríkjamönnum sem hingað komu frá byrjun nóvember og fram í lok febrúar síðastliðinn. Auk þess að fljúga daglega frá New York til Íslands yfir sumarið þá býður Delta jafnframt upp á jafn tíðar ferðir hingað frá Minneapolis yfir háannatímann í ferðaþjónustunni.

Þessi niðurskurður Delta á Íslandsflugi er sérstaklega áhugaverður í ljósi þess að WOW air var mjög stórtækt í flugi til New York og flaug þegar mest lét bæði til Newark og JFK flugvallar. Framboð á Íslandsflugi frá New York hafði því dregist töluvert saman en engu að síður hafa forsvarsmenn Delta ákveðið að gera hlé á áætlunarferðunum hingað til lands í lok október. Þar með er útlit fyrir að Icelandair verði eitt um áætlunarflug milli Íslands og New York í vetur enda hefur það til dæmis komið fram í máli forsvarsmanna United flugfélagsins að þeir sjá ekki tækifæri í að hefja heilsársflug til Íslands frá New York.

Þess ber að geta að Túristi hefur ekki fengið skýringar frá Delta á því hvers vegna félagið hættir flugi til Íslands yfir vetrarmánuðina. En eins og staðan er núna stefnir í að framboð á ferðum hingað næsta vetur dragist enn meira saman en sem nemur brotthvarfi WOW air því nýverið greindi Túristi frá niðurskurði í Íslandsflugi easyJet. Það félag og Delta hafa undanfarin ár verið ein umsvifamestu erlendu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli.