Íslensku ferðaskrifstofurnar færðar í annað félag

Heimsferðir og Terra Nova tilheyra ekki lengur Travelco Nordic. Arion banki á þó áfram allar ferðaskrifstofurnar sem voru hluti af samsteypu Andra Más Ingólfssonar.

strond nikos zacharoulis
Ferðaskrifstofur Travelco Nordic hafa aðallega sérhæft sig í sölu á sólarlandaferðum. Mynd: Nikos Zacharoulis / Unsplash

Í kjölfar gjaldþrots Primera Air sl. haust þá flutti Andri Már Ingólfsson, eigandi flugfélagsins, allar sjö ferðaskrifstofurnar sem hann átti úr íslensku móðurfélagi, Primera Travel Group, yfir í danskt dótturfélag. Það var endurnefnt Travelco Nordic en í síðustu viku tók Arion banki það yfir. Ársreikningur þessa danska eignarhalds félags liggur nú fyrir og þar kemur fram að það tapaði nærri þremur milljörðum króna í fyrra. Í frétt danska ferðaritsins Standby, um afkomu Travelco Nordic, kemur fram að íslensku ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Terra Nova hafi verið seldar út úr félaginu fyrir 58 milljónir danskra króna. Það jafngildir um 1,1 milljarði króna.

Ekkert var minnst á þessa sölu íslensku ferðaskrifstofanna út úr móðurfélaginu í tilkynningu sem Arion banki sendi frá sér í kjölfar yfirtökunnar í síðustu viku. Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi bankans, staðfestir hins vegar að íslensku fyrirtækin tvö hafi aðskilin frá hinum fimm ferðaskrifstofunum sem áður tilheyrðu Primera Travel Group ehf. og nú síðast Travelco Nordic í Danmörku. Hann segir um að ræða ákveðna skipulagsbreytingu og Arion banki sé ennþá endanlegur eigandi allra ferðaskrifstofanna sjö.

Líkt og Túristi greindi frá í morgun þá telur óháður endurskoðandi Travelco Nordic að fyrirtækið þurfi á auknu fé að halda til að komast í gegnum árið í ár. Aðspurður um þá stöðu þá segir Haraldur Guðni að Arion banki muni styðja við félagið. En áður hefur komið fram að bankinn hyggst reyna að selja ferðaskrifstofurnar sem fyrst. Rekstur íslensku ferðaskrifstofanna mun ganga vel á meðan róðurinn er þyngri á hinum Norðurlöndunum. Síðustu misseri hafa verið almennum ferðaskrifstofum á hinum Norðurlöndunum nokkuð erfið meðal annars vegna hitabylgju í Skandinavíu sl. sumar. Margir héldu sig því heima og salan í ár hefur einnig verið lakari en ella.