Íslenskum hótelgestum fækkar eftir brotthvarf WOW

Í Berlín bókuðu Íslendingar nokkru færri gistinætur í apríl en WOW air var mjög stórtækt í flugi til borgarinnar.

berlin sumar
Sumarstemning í Berlín. Mynd: Visit Berlin

Allt síðasta ár flugu þotur Icelandair og WOW air til Berlínar og þá fjölgaði íslenskum túristum í borginni umtalsvert í samanburði við árið á undan. Þannig voru gistinætur landans um tíund fleiri á hótelum borgarinnar eða samtals um fimmtíu þúsund. Til samanburðar þá keyptu Þjóðverjar um 167 þúsund gistinætur á reykvískum hótelum í fyrra.

Með brotthvarfi WOW air hefur framboð á flugi héðan til þýsku höfuðborgarinnar dregist töluvert saman og í apríl hafði það umtalsverð áhrif á ferðamannastrauminn héðan til borgarinnar. Þannig fækkaði íslenskum gistinóttum í Berlín um fimmtán af hundraði í apríl jafnvel þó allt páskafríið hafi verið í þeim mánuði. Þróunin var álíka neikvæð mánuðinn á undan sem skrifast væntanlega líklega á að páskarnir í fyrra náðu yfir mánaðamótin mars apríl.

Þó bæði Icelandair og WOW hafi flogið reglulega milli Íslands og Berlínar í fyrra þá var WOW air mun stórtækara í farþegaflutningum frá borginni. Þannig nýttu um 85 þúsund farþegar sér ferðir WOW til og frá Schönefeld flugvelli en rétt um 35 þúsund flugu með Icelandair til og frá Tegel. Icelandair hefur í ár fjölgað ferðum sínum til Berlínar og fljúga þotur félagsins þangað tvisvar á dag yfir sumarið.