Kristinn R. Ólafsson ætlar ekki að fljúga aftur með Vueling

Nýverið seinkaði brottför Vueling frá Barcelona til Íslands um nærri hálfan sólarhring. Flugstjórinn sagði vondu veðri á áfangastað um að kenna en alla vega einn af farþegunum sættir sig ekki við þá skýringu og ætlar að fara með málið lengra.

vueling airbus
Mynd: Vueling

Spænska lággjalda­flug­fé­lagið Vueling var það eina sem aflýsti flugi sínu til Íslands þann 20. maí síðast­liðinn. Farþeg­arnir voru þá komnir út í vél og bar flug­stjórinn við vondu veðri jafnvel þó blíða hafi verið hér á landi. Kristinn R. Ólafsson, leið­sögu­maður, farar­stjóri, þýðandi, rithöf­undur og fyrrv. frétta­ritari RÚV í Madríd var meðal farþega. Hér er lýsing hans á ferða­laginu sem sem hann birti á Face­book og gaf Túrista leyfi til að endur­birta. Þess má geta að Kristinn hefur lagt fram kröfu um bætur frá Vueling í gegnum spænska lögfræð­inga sem sérhæfa sig í þess háttar. En við gefum sögu­mann­inum orðið:

„Við höfðum setið í tæpan klukku­tíma í full­skip­aðri vélinni – Airbus A320 frá spænska flug­fé­laginu Vueling – á Barsel­ónuflug­velli þarna undir kvöld hinn 20. maí síðast­liðinn. Flug VY 8560. Áætluð brottför: 18.25. Lending í Keflavík klukkan 21.00. Hvað var að gerast? Hvers­vegna var ekki lagt af stað? Það sat ungt katalónskt par við hliðina á mér; ég í 24D, þau í E og F. Í kring voru að mestu Katalónar og síðan hópur af íslenskum konum að koma úr golf­ferð. Við vorum farin að líta hvert á annað; muldra, ókyrrast. Ég tók að rifja upp fyrir sjálfum mér seink­unar- og aflýs­inga­feril þessa lággjalda­flug­fé­lags með þessu asna­lega nafni sem einhver snill­ingur hafði sett saman úr spænska nafn­orðinu vuelo (flug) og ensku lýsing­ar­háttar­end­ing­unni ‑ing. Nafnið jafn hörmu­legt og orðspor félagsins. Samt hafði ég nú tekið þá áhættu að fljúga með því. Á þessum válegu tímum er orðið erfitt að finna far á viðráð­an­legu verði. Var ég nú að súpa seyðið af því að spara eyrinn? Ég reif upp farsímann minn, fletti uppá Vueling BCN KEF, datt niðrá grein í rafriti á spænsku sem stýrt er frá Reykjavík: El faro de Reykjavík. Þar skýrði blaða­mað­urinn Èric Lluent frá því hvernig Vueling aflýsti einmitt gjarnan flugi til Kefla­víkur og bæri við slæmu veðri.

Og þá kom flug­stjórinn loksins í kall­kerfið:
„Góðir farþegar. Okkur þykir leitt að þurfa að tilkynna að þessu flugi hefur verið aflýst vegna slæms veðurs á áfanga­stað.“
Ha?! Slæms veðurs á áfanga­stað. Ég sló inn vedur.is. Fann veðurspá fyrir suðvest­ur­hornið klukkan 21. Ekkert að veðri! Þvert á móti.
Leik­urinn æstist. Fólk hafði í frammi mótmæli; þó engan hávaða eða læti. Ég var staðinn upp. Talaði við sessu­nauta á spænsku og fleiri í kring; var farin að skiptast á orðum við íslensku konurnar. Yrti svo á flugliða:
„Hvað er í gangi?
„Ja, það er bara veðrið.“
„VEÐRIÐ? Ekkert að því,“ sagði ég og rak símann framaní flug­þjón. Hann setti upp pókerfés, lét engan bilbug á sér finna.
„Svona er þetta bara. Við vildum gjarna fljúga með yður en veðrið ræður og öryggið.“
Ég þorði ekki að fara uppá háa séið; vildi ekki láta hand­taka mig fyrir flugdólgs­hátt. Nógur var hann nú samt hjá þessu flugfélagi.Það leið nokkur stund:
„Farþegar, vinsam­legast yfir­gefið vélina,“ gall þá í kall­kerfinu.

Þótt ég hefði hemil á mér á ytra byrðinu var ég samt það æstur innaní mér að ég rauk fram og uppgötvaði ekki fyrr en við útgöngu­dyrnar að ég hafði gleymt litlu ferða­tösk­unni minni í skápnum yfir sætinu sem ég hafði setið í. Ég varð að bíða með að sækja hana uns allir voru komnir út. Rauk þá aftrí enn með farsímann í hend­inni, þreif töskuna og gekk fram­eftir gang­inum á ný. Þá voru þeir flug­stjórinn og aðstoð­ar­flug­mað­urinn komnir fram og stóðu þar voða­lega vallprúðir í borða­lögðum búningnum og biðu þess að eftir­leguk­indin færi út.

Ég stóðst ekki mátið að reka framaní kafteininn símann minn, enn með vedur.is á skjánum, með gullnar sólir yfir suðvest­ur­horninu og segja:
„Hvernig getið þér – ég gætti þess að nota einskonar fyrir­litn­ing­ar­þérun á manninn þótt ég hefði alveg getað þúað hann enda ég miklu eldri svosem á grönum má sjá en þetta skeggjaða ungmenni í flug­stjóram­únd­er­ing­unni – borið annað eins á borð á þessum tímum inter­netsins þegar maður getur séð í handa­veifi hvernig veðrið er og verður í kvöld í Keflavík klukkan níu þegar við hefðum átt að lenda? Það er ekkert að veðri í Keflavík í kvöld!“

Það var ekki örgrannt um að það kæmi á manninn sem bjóst hvorki við því að þessi óspán­verja­legi lubbi sem þarna dratt­aðist síðastur út kæmi upp orði á spænsku né að hann færi að efast um sann­leiks­gildi orða hans: „Nei, sko það er veðrið á vara­flug­völl­unum; það er alstaðar svo vont að við getum ekki hætt á að fljúga.“
„Sí, sí…“ svaraði ég og reyndi að lita síin hæðn­is­tóni. „Verið þér sælir, herrar mínir. Njótið kvöldsins.“

Síðan tók við löng ganga í áttina að útgangi útúr flug­stöð­inni og að tösku­belti. Í leið­inni var gerður stans við afgreiðslu­borð þar sem okkur voru afhent ný brott­far­ar­spjöld, í flug klukkan 9.15 morg­uninn eftir. Við fengum líka ávísun á gist­ingu á hóteli, með kvöld­verði, morg­unmat og einni hring­ingu (sic!) að því er stóð á speldinu. Hótelið hét Mar Blau. Okkur var sagt að það væri í Barselónu. Aðrir farþegar fóru á einhver önnur hótel. Síðan var okkur smalað uppí hópferðabíl og rennt af stað útí kvöldið sem óðar varð að myrkri. Ég fór að leita að þessum blessaða Blásæ, þ.e. hótelinu, og fann það á Google Maps, í strand­bænum Calella fyrir norð­austan borgina. Við ókum áfram, komin á hrað­brautina meðfram Montj­uïch, framhjá Römblunni og síðan Ólymp­íu­höfn­inni… útúr borg­inni.

Loks eftir um klukku­stund renndum við að dyrum þessa níu hæða hótelk­umb­alda. Þegar inn var komið dunaði dans­tónlist og iðandi fólk­storfa á miðju gólfi fyrir framan barinn innst til vinstri. Spænskir eldri­borg­arar á glaðri stundu! Þröng við afgreiðslu­borðið við innrit­unina. Sumir spurðu um kvöld­verðinn. „Nei,“ svaraði móttöku­stjórinn, eða kannski var þetta hótel­stjórinn, og dró seiminn. „Það er búið að loka matsalnum og eldhúsinu; klukkan er farin að ganga ellefu. Enginn kvöld­verður.“ Samt er venju­legur kvöld­mat­ar­tími á Spáni einmitt um klukkan tíu.

Ég fékk herbergi 120. Fór upp. Fremur nötur­legar vist­ar­verur. Gaml­aðar.
Sem betur fór hafði ég keypt mér samloku á flug­vell­inum til að narta í á leið­inni til Íslands. Hún breyttist nú í kvöld­verð á hótel­her­berginu. En mig vantaði eitt­hvað að drekka. Gekk niður og útá stétt. Litaðist um og rak strax augun í Super­market Safari á götu­horninu skáhallt á móti. Hraðaði mér þangað og þreif tvo Volldamm-bjóra úr kæliskáp; ágætt að fá sér tvo, þá sofnar maður kannski fyrr.

Meðan ég borgaði fór ég að spjalla við kassa­stúlkuna. Þegar hún heyrði orð mín um aflýsta flugið og Vueling sagði hún:
„Já, það eru alltaf að koma hingað farþegar frá Vueling.“
Grunaði ekki Gvend. Þetta kom heim og saman við greinina í El faro de Reykjavík og reynslu mína af því að taka sem leið­sögu­maður á móti spænskum ferða­mönnum í Keflavík að koma með Vueling. Oft einhver vand­ræði; seinkanir, aflýs­ingar, týndar töskur. Þetta hefur gengið svo langt að spænsk flug­mála­yf­ir­völd hafa þurft að grípa í taumana, rann­saka félagið. Það gerðist t.a.m. 2016. Í fyrra­sumar var það í 44. sæti af 46 í fjölda seinkana á flug­vell­inum í Barselónu, svosem lesa mátti í spænska dagblaðinu El País. En samt virðast þessir flugdólgar halda uppteknum hætti! Ég fór uppá herbergi, reif í mig samlokuna, hvolfdi í mig bjórnum, skreið undir lak og þunna rúmá­breiðu. Mér var hálf­kalt. Sofnaði þó að lokum.

Vaknaði fyrir allar aldir. Staul­aðist niðrí anddyri með töskuna. Fór enn neðar, í kjall­arann, í morg­unmat. Þar hitti ég aftur þrenn hjón frá León á Spáni sem voru að fara í Íslands­ferð og ég hafði átt orða­skipti við kvöldið áður. Þau höfðu átt pant­aðan bíla­leigubíl í Keflavík og auðvitað gist­ingu á hóteli einhverstaðar. Og höfðu áhyggjur af fram­vindu mála þegar þau kæmu til Íslands.
Ég hafði litla lyst. Fékk mér þó einn tvöfaldan espresso úr kaffivél og einhverja kökuögn með.
Síðan uppí rútu aftur. Klukkan var að verða sex þegar við renndum af stað. Sólin rétt nýkomin upp. Miðjarð­ar­hafið morg­un­vært, ennþá með stír­urnar í hafsauganu. Lítil umferð á vegum sem þéttist þó þegar nær dró Barsel­ónu­borg.

Í gegnum örygg­is­skoðun enn á ný á flug­vell­inum. Síðan bið. Loks útí vél. Sest í sömu sæti. Flug­stjóri kominn í kall­kerfið. Ekki sá sami og skegg-unginn daginn áður:  „Góðan dag, góðir farþegar. Við endur­tökum afsök­un­ar­beiðni okkar, þykir afar leitt að hafa þurft að aflýsa fluginu í gær en það var vegna slæmra veður­skil­yrða á vara­flug­völlum á leið­inni … Blablabla … “
Djöf… Það er enn verið að setja á svið sama leik­ritið! Orðin hlupu um hausinn á mér og svo sagði ég þau upphátt við sessu­nauta mína, unga parið katalónska. Þau kinkuðu kolli, mædd en þó vongóð. Ísland ævin­týr­anna beið þeirra.

Loks flugum við af stað. Unga parið horfði á Krúnu­leikana í tölv­unni sinni … Og svo lentum eftir rúma fjóra tíma í Keflavík, ellefu og hálfum tíma seinna en áætl­aðan var. Aðeins einu flugi til Kefla­víkur hafði verið aflýst daginn áður: VY8560!!!

Þegar heim var komið ákvað ég að fá frekari stað­fest­ingu á grun mínum og grennslast fyrir um veðrið. Í stuttu máli að það var ekkert að veðri í hvorki Keflavík né í Glasgow (líklegum vara­flug­velli) á mánu­dags­kvöld. En þá vaknar spurn­ingin? Hvers­vegna setur Vueling upp þetta leikrit – þessa lyga­sögu sem svo auðvelt er að sjá í gegnum? Líklegast til að þurfa ekki að greiða bætur sem munu vera a.m.k. 400 evrur á farþega á þessari flug­leið. Engar bætur þarf að greiða ef flugi er seinkað eða því aflýst af óvið­ráð­an­legum ástæðum einsog vondu veðri. Og ódýrara að leigja rútur og senda farþega á hótel eina nótt, ÁN kvöld­verðar; maður talar nú ekki um ef flug­fé­lagið kann að hafa gert sérsamn­inga við tiltekin hótel. Og síðan treystir það á að fáir standi í því veseni að leita réttar síns og kría út bætur. Það hygg ég að sé merg­urinn málsins.

En hvað varð til þess að þetta gerðist 20. maí síðast­liðinn, og hví hefur þetta gerst oft áður? Mér finnst tvennt koma til greina: annað­hvort bilaði vélin eða Vueling vantaði vél á aðra styttri flug­leið eða flug­leiðir. Almenn skyn­semi segir manni að flug frá Barselónu til Kefla­víkur fram og til baka taki með öllu minnst 13–14 klukku­stundir. Og margt hægt að gera við vél á meðan, flytja fleiri, græða meira. Eitt er víst: ég ætla aldrei að fljúga með Vueling aftur!