Lægra herbergja­verð en hærri gisti­tekjur

Nýting á hótelum Icelandair jókst umtalsvert í maí þrátt fyrir samdrátt í fjölda ferðamanna. Skrifast þetta helst á fleiri ráðstefnu- og hvataferðahópa. „Við þurfum einfaldlega að sjá sóknarfæri í fækkun ferðamanna," segir Hildur Ómarsdóttir hjá Icelandair hótelunum.

Gistinóttum á Icelandair hótelunum fjölgaði um 31 prósent í maí. Ferðafólki fækkaði hins vegar um 24 prósent. Mynd: Icelandair hótelin

Þó erlendu ferða­fólki hér á landi hafi fækkað um nærri fjórðung í maí þá jókst herbergja­nýt­ingin á hótelum Icelandair umtals­vert í mánuð­inum eða úr 73 prósentum í 83 prósent. Þetta mátti sjá í mánað­ar­legum flutn­inga­tölum Icelandair Group sem birtar voru fyrir helgi og vakti þessi aukna nýting athygli meðal fagfólks í ferða­þjón­ustu. Þróunin var nefni­lega önnur á mörgum öðrum hótelum samkvæmt viðmæl­endum Túrista.

„Það er rétt að við náðum góðri nýtingu í maímánuði hjá Icelandair hótelum. Sérstak­lega fyrir tilstillan aukn­ingar í ráðstefnu- og hvata­ferða­hópum. Verð­lagning hótel­anna er í höndum tekju­stýr­ingar sem lagar verð að fram­boði og eftir­spurn hverju sinni. Þannig lækkaði meðal­verð í maí mánuði hjá okkur um 6 prósent miðað við maí í fyrra en gisti­tekjur hækkuðu engu að síður um 8 prósent, sem er einstak­lega ánægju­legur árangur í harðn­andi umhverfi,” segir Hildur Ómars­dóttir, forstöðu­manns þróunar- og mark­aðs­sviðs Icelandair hótel­anna, í svari til Túrista.

Hún segir fjölgun gesta í ráðstefnu- og hvata­ferðum vera í takt við stefnu fyrir­tæk­isins um fleiri betur borg­andi ferða­menn. Þetta séu hópar sem dvelja lengur, greiða hærra gisti­verð og nýta sér aðra þjón­ustu t.d. fundarað­stöðu, veit­inga­staði og afþrey­ingu.

Herbergja­nýt­ingin jókst ekki aðeins á Icelandair hótel­unjum í Reykjavík heldur líka á lands­byggð­inni og samtals var sölu­aukn­ingin í gistinóttum talið nærri þriðj­ungur í maí. „Viðskiptin koma ýmist beint til okkar erlendis frá og mikið til í gegnum öfluga söluk­anala Hilton Worldwide, en þrjú af sex hótelum í Reykjavík eru með sérleyfi á notkun vörumerkj­anna þeirra,” segir Hildur.

Stóran hluta af fækkun ferða­manna í maí má rekja til falls WOW air en félagið stóð til að mynda fyrir nærri átta hundruð áætl­un­ar­ferðum til landsins í maí í fyrra. Hildur segir hins vegar að fram til þessa hafi brott­hvarf flug­fé­lagsins ekki haft telj­andi áhrif á eftir­spurn eða nýtingu hjá Icelandair hótel­unum. „Við tökum engu að síður undir eftirsjá af flug­fé­laginu á markaði.”

Hildur segir góðan gang í bókunum um þessar mundir og horfur góðar fyrir komandi sumar­vertíð. „Fyrir­séður aukinn samdráttur í flugi til landsins í haust er hins­vegar áhyggju­efni fyrir komandi vetur,” segir Hildur og segir mikil­vægt að hags­mun­að­ilar snúi bökum saman nú þegar harðnar á dalnum. Það verði til dæmis gert, að hennar mati, með mótun mark­vissar stefnu um uppbygg­ingu áfanga­stað­arins og í fram­haldinu mark­aðs­setn­ingu með samhljómi við setta stefnu. „Við þurfum einfald­lega að sjá sókn­ar­færi í fækkun ferða­manna til landsins og leita leiða til að hámarka viðskiptin með því að sækja mark­visst á nýja mark­hópa og standa undir vænt­ingum þeirra.”

Sölu­ferli Icelandair hótel­anna sem hófst síðast­liðið sumar hefur dregist á langinn en áformað er að ljúka því í síðasta lagi í lok þessa mánaðar. Icelandair mun þó áfram eiga fimmt­ungs­hlut í fyrir­tækinu samkvæmt því sem fram kom í tilkynn­ingu frá fyrir­tækinu í vor.