Norðurstrandarleið opnuð

Þriðji mest spennandi áfangastaður ársins í Evrópu hefur nú formlega verið tekinn í gagnið.

Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Norðurstrandarleið, eða Arctic Coast Way á ensku, var opnuð formlega í gær á bæði Hvammstanga og Bakkafirði. „Leiðin hefur verið í þróun í meira en þrjú ár og því afar ánægjulegt að þessum áfanga hafi verið náð í dag. Sem kunnugt er hefur leiðin þegar vakið mikla athygli erlendis þrátt fyrir að hafa ekki verið formlega opnuð, sem sést best í því að Lonely Planet valdi leiðina sem þriðja besta áfangastað í Evrópu á þessu ári,“ segir í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, klipptu á borða við afleggjarann inn á Hvammstanga og opnuðu þannig leiðina formlega. Það sama gerðu Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og Árni Bragi Njálsson, fulltrúi sveitarstjórnar Langanesbyggðar við afleggjarann inn á Bakkafjörð.

Við opnunina voru ný skilti vígð, sem marka Norðurstrandarleið og segja ferðamönnum hvenær þeir ferðast eftir henni. Þessi skilti marka þáttaskil í íslenskri ferðaþjónustu, því í fyrsta sinn eru komin upp skilti með brúnum lit. Sá litur er þekktur erlendis fyrir skilti sem tengjast ferðaþjónustu.

Ný heimasíða hefur sömuleiðis verið sett í loftið og þar má nú sjá allt það helsta sem hægt er að sjá og gera á leiðinni.