Norwegian sýnir Icelandair klærnar

Það stefnir í merkilega mikið framboð á flugsætum til Kanaríeyja í vetur. Icelandair hefur ekki enn svipt hulunni af boðaðri sókn sinni inn á sólarlandamarkaðinn.

Í viku hverri verður pláss þrettán hundruð farþega í þotum Norwegian frá Keflavíkurflugvelli til Las Palmas og Tenerife. Mynd: Norwegian

Nú eru rúmir tveir mánuðir síðan Icelandair tilkynnti um aukið flug til Suður-Evrópu en ennþá liggur ekki fyrir til hvaða áfanga­staða verður flogið eða hvernig staðið verði að sölu á farmiðum líkt og Túristi hefur fjallað um. Í ljósi skorts á þessum mikil­vægu upplýs­ingum má gera ráð fyrir að með tilkynn­ing­unni, sem send var út hálfum mánuði eftir fall WOW air, hafi stjórn­endur Icelandair ætlað að fæla aðra frá því að reyna að fylla það skarð sem WOW air skildi eftir sig í flugi til suður­hluta álfunnar. Jafnvel þó þeir hafi sjálfir ekki verið tilbúnir með áætlun. WOW air var nefni­lega stór­tækt flugi til Tenerife og Kanarí og bauð auk þess upp á ferðir til Alicante og Barcelona.

Stjórn­endur Norwegian eru þó ekki hikandi við að sækja á þann markað sem WOW air var leið­andi á. Í gær hóf norska flug­fé­lagið nefni­lega sölu á flug­miðum til Kana­ríeyja frá Kefla­vík­ur­flug­velli. Í boði verða fimm ferðir í viku til Tenerife í vetur og tvær til Las Palmas. Þetta eru tíðari ferðir en WOW air hafði á boðstólum og vart hægt að túlka innkomu Norwegian á annan hátt en að Norð­menn­irnir ætli sér að gera Icelandair það erfitt að hefja boðaða sókn inn á mark­aðinn. Ein af ástæðum þess er sú að Norwegian mun notast við flug­vélar og áhafnir sem eru gerðar út frá Spáni og þar með er kostn­að­urinn lægri en hjá íslenskri útgerð. Icelandair getur þá ólík­lega keppt við fargjöld Norwegian nema það hafi neikvæð áhrif á afkomuna.

Ein af forsend­unum fyrir að áætl­un­ar­flugi á sólar­staði er að ferða­skrif­stofur, sem selja klass­ískar sólar­landa­ferðir, taki umtals­verðan hluta af sætunum. Og samkvæmt heim­ildum Túrista þá ríkir óánægja meðal annarra ferða­skrif­stofa með hvernig Icelandair hefur staðið að sölu flug­sæta í sólina síðustu misseri. Salan hefur nefni­lega farið í gegnum ferða­skrif­stofuna Vita, dótt­ur­félag Icelandair Group, sem þar með fær mikil­vægar upplýs­ingar um sölumál og viðskipta­vini helstu keppi­nauta sinna. Það er engu að síður Vita sem leigir þoturnar af Icelandair og ber alfarið ábyrgð á þeim.

Vita hefur um árabil heyrt undir Iceland Travel og Hörður Gunn­arsson verið fram­kvæmda­stjóri beggja fyrir­tækja. Hann lét hins vegar af störfum hjá Iceland Travel í byrjun þessa mánaðar en mun stýra Vita næstu „vikur eða mánuði” samkvæmt svari frá Icelandair Group.

Þess má geta að nokkrum dögum fyrir fall WOW tilkynntu Heims­ferðir að ferða­skrif­stofan hefði náð samkomu­lagi við Norwegian um flug  til Kanarí og Tenerife í vetur. Þá var aðeins um að ræða eina ferð í viku á hvorn áfanga­stað. Á því hefur nú orðið stór­breyting og eru viðmæl­endur Túrista, sem vel þekkja til, sammála um að útspil Norwegian gæti farið nærri því að gera út um boðaða land­vinn­inga Icelandair í Suður-Evrópu. Án þess að sitja nær eitt að fluginu til Kanarí og Tenerife þá gæti botninn hafa dottið úr þessum áformum.

Hvort það verður raunin á tíminn eftir að leiða í ljós. En ætla má að stjórn­endur Icelandair geti ekki mikið lengur botnað tilkynn­inguna sem þeir sendu í apríl til kaup­hall­ar­innar og þar með svipt hulunni af áætlun sinni um hvernig hið nýja Suður-Evrópuflug mun „skapa tæki­færi til frekari vaxtar.” Sérstak­lega núna þegar etja þarf kappi við flug Norwegian til Tenerife, Las Palmas, Barcelona, Alicante, Barcelona og Madríd frá Kefla­vík­ur­flug­velli.


Uppfært: Í upphaf­legum texta kom ekki fram að Vita er í raun leigutaki á flug­vélum Icelandair og ber á þeim ábyrgð. Þeirri stað­reynd hefur verið bætt við greinina. Í kaup­hall­ar­til­kynn­ingu Icelandair 10. apríl er þó talað um samstarf Icelandair og Vita í flugi til Alicante. Túristi lagði þann skilning í þau orð að um sameig­in­legt verk­efni dótt­ur­fé­lag­anna tveggja væri um að ræða. Sá miskiln­ingur er hér með leið­réttur.