Samfélagsmiðlar

Norwegian sýnir Icelandair klærnar

Það stefnir í merkilega mikið framboð á flugsætum til Kanaríeyja í vetur. Icelandair hefur ekki enn svipt hulunni af boðaðri sókn sinni inn á sólarlandamarkaðinn.

Í viku hverri verður pláss þrettán hundruð farþega í þotum Norwegian frá Keflavíkurflugvelli til Las Palmas og Tenerife.

Nú eru rúmir tveir mánuðir síðan Icelandair tilkynnti um aukið flug til Suður-Evrópu en ennþá liggur ekki fyrir til hvaða áfangastaða verður flogið eða hvernig staðið verði að sölu á farmiðum líkt og Túristi hefur fjallað um. Í ljósi skorts á þessum mikilvægu upplýsingum má gera ráð fyrir að með tilkynningunni, sem send var út hálfum mánuði eftir fall WOW air, hafi stjórnendur Icelandair ætlað að fæla aðra frá því að reyna að fylla það skarð sem WOW air skildi eftir sig í flugi til suðurhluta álfunnar. Jafnvel þó þeir hafi sjálfir ekki verið tilbúnir með áætlun. WOW air var nefnilega stórtækt flugi til Tenerife og Kanarí og bauð auk þess upp á ferðir til Alicante og Barcelona.

Stjórnendur Norwegian eru þó ekki hikandi við að sækja á þann markað sem WOW air var leiðandi á. Í gær hóf norska flugfélagið nefnilega sölu á flugmiðum til Kanaríeyja frá Keflavíkurflugvelli. Í boði verða fimm ferðir í viku til Tenerife í vetur og tvær til Las Palmas. Þetta eru tíðari ferðir en WOW air hafði á boðstólum og vart hægt að túlka innkomu Norwegian á annan hátt en að Norðmennirnir ætli sér að gera Icelandair það erfitt að hefja boðaða sókn inn á markaðinn. Ein af ástæðum þess er sú að Norwegian mun notast við flugvélar og áhafnir sem eru gerðar út frá Spáni og þar með er kostnaðurinn lægri en hjá íslenskri útgerð. Icelandair getur þá ólíklega keppt við fargjöld Norwegian nema það hafi neikvæð áhrif á afkomuna.

Ein af forsendunum fyrir að áætlunarflugi á sólarstaði er að ferðaskrifstofur, sem selja klassískar sólarlandaferðir, taki umtalsverðan hluta af sætunum. Og samkvæmt heimildum Túrista þá ríkir óánægja meðal annarra ferðaskrifstofa með hvernig Icelandair hefur staðið að sölu flugsæta í sólina síðustu misseri. Salan hefur nefnilega farið í gegnum ferðaskrifstofuna Vita, dótturfélag Icelandair Group, sem þar með fær mikilvægar upplýsingar um sölumál og viðskiptavini helstu keppinauta sinna. Það er engu að síður Vita sem leigir þoturnar af Icelandair og ber alfarið ábyrgð á þeim.

Vita hefur um árabil heyrt undir Iceland Travel og Hörður Gunnarsson verið framkvæmdastjóri beggja fyrirtækja. Hann lét hins vegar af störfum hjá Iceland Travel í byrjun þessa mánaðar en mun stýra Vita næstu „vikur eða mánuði“ samkvæmt svari frá Icelandair Group.

Þess má geta að nokkrum dögum fyrir fall WOW tilkynntu Heimsferðir að ferðaskrifstofan hefði náð samkomulagi við Norwegian um flug  til Kanarí og Tenerife í vetur. Þá var aðeins um að ræða eina ferð í viku á hvorn áfangastað. Á því hefur nú orðið stórbreyting og eru viðmælendur Túrista, sem vel þekkja til, sammála um að útspil Norwegian gæti farið nærri því að gera út um boðaða landvinninga Icelandair í Suður-Evrópu. Án þess að sitja nær eitt að fluginu til Kanarí og Tenerife þá gæti botninn hafa dottið úr þessum áformum.

Hvort það verður raunin á tíminn eftir að leiða í ljós. En ætla má að stjórnendur Icelandair geti ekki mikið lengur botnað tilkynninguna sem þeir sendu í apríl til kauphallarinnar og þar með svipt hulunni af áætlun sinni um hvernig hið nýja Suður-Evrópuflug mun „skapa tækifæri til frekari vaxtar.“ Sérstaklega núna þegar etja þarf kappi við flug Norwegian til Tenerife, Las Palmas, Barcelona, Alicante, Barcelona og Madríd frá Keflavíkurflugvelli.


Uppfært: Í upphaflegum texta kom ekki fram að Vita er í raun leigutaki á flugvélum Icelandair og ber á þeim ábyrgð. Þeirri staðreynd hefur verið bætt við greinina. Í kauphallartilkynningu Icelandair 10. apríl er þó talað um samstarf Icelandair og Vita í flugi til Alicante. Túristi lagði þann skilning í þau orð að um sameiginlegt verkefni dótturfélaganna tveggja væri um að ræða. Sá miskilningur er hér með leiðréttur.

Nýtt efni

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …