Norwegian umsvifamest í Spánarflugi frá Íslandi

Ekkert flugfélag flytur nú fleiri farþega milli Íslands og Spánar en norska lággjaldaflugfélagið Norwegian.

Mynd: Norwegian

Það var árið 2003 sem norska flugfélagið Norwegian hóf að fljúga til Spánar og fimm árum síðar var félagið orðið það umsvifamesta í farþegaflutningum milli Noregs og Spánar. Þeim áfanga náði félagið í Danmörku árið 2011 og tveimur árum síðar var Norwegian það flugfélag sem flutti flesta milli Svíþjóðar og Spánar. Í fyrra tók hið norska lággjaldaflugfélag forystuna í Spánarflugi í Finnlandi og í apríl síðastliðnum náði félagið fyrsta sætinu í flutningum milli Íslands og Spánar.

Af því tilefni sendi félagið út sérstaka tilkynningu þar sem fram kemur að í fyrra hafi um 5,4 milljónir farþega nýtt sér Spánarflug Norwegian og í sumar muni félagið halda úti 65 flugleiðum milli Norðurlandanna fimm og Spánar. Þar af eru þrjár frá Keflavíkurflugvelli því héðan fljúga þotur félagsins allt árið um kring til Madríd, Barcelona og Alicante. Í vetur bætist svo við leiguflug fyrir Heimsferðir til Kanarí og Tenerife.

Ástæða þess að Norwegian nær nú fyrsta sætinu þegar kemur að farþegaflugi héðan til Spánar er augljóslega sú að nú er WOW air horfið af sjónarsviðinu en félagið var mjög umsvifamikið í flugi til Kanarí og Tenerife og bauð auk þess upp á ferðir til Alicante og sumarflug til Barcelona.

Í nýliðnum maí þá flugu þotur Norwegian 31 ferð frá Keflavíkurflugvelli til Spánar en samanlagt 22 ferðir til Noregs og Bergen samkvæmt talningu Túrista.