Norwegian umsvifa­mest í Spán­ar­flugi frá Íslandi

Ekkert flugfélag flytur nú fleiri farþega milli Íslands og Spánar en norska lággjaldaflugfélagið Norwegian.

Mynd: Norwegian

Það var árið 2003 sem norska flug­fé­lagið Norwegian hóf að fljúga til Spánar og fimm árum síðar var félagið orðið það umsvifa­mesta í farþega­flutn­ingum milli Noregs og Spánar. Þeim áfanga náði félagið í Danmörku árið 2011 og tveimur árum síðar var Norwegian það flug­félag sem flutti flesta milli Svíþjóðar og Spánar. Í fyrra tók hið norska lággjalda­flug­félag forystuna í Spán­ar­flugi í Finn­landi og í apríl síðast­liðnum náði félagið fyrsta sætinu í flutn­ingum milli Íslands og Spánar.

Af því tilefni sendi félagið út sérstaka tilkynn­ingu þar sem fram kemur að í fyrra hafi um 5,4 millj­ónir farþega nýtt sér Spán­ar­flug Norwegian og í sumar muni félagið halda úti 65 flug­leiðum milli Norð­ur­land­anna fimm og Spánar. Þar af eru þrjár frá Kefla­vík­ur­flug­velli því héðan fljúga þotur félagsins allt árið um kring til Madríd, Barcelona og Alicante. Í vetur bætist svo við leiguflug fyrir Heims­ferðir til Kanarí og Tenerife.

Ástæða þess að Norwegian nær nú fyrsta sætinu þegar kemur að farþega­flugi héðan til Spánar er augljós­lega sú að nú er WOW air horfið af sjón­ar­sviðinu en félagið var mjög umsvifa­mikið í flugi til Kanarí og Tenerife og bauð auk þess upp á ferðir til Alicante og sumarflug til Barcelona.

Í nýliðnum maí þá flugu þotur Norwegian 31 ferð frá Kefla­vík­ur­flug­velli til Spánar en saman­lagt 22 ferðir til Noregs og Bergen samkvæmt taln­ingu Túrista.