Óstundvísasti flugvöllurinn þrátt fyrir framför.

Í maí var stundvísin á Keflavíkurflugvelli lakari en á hinum stórum norrænu flugvöllunum.

Mynd: Nils Nedel / Unsplash

Flugumferðin um Keflavíkurflugvöll minnkaði umtalsvert í maí og þá batnaði stundvísin líka þónokkuð. Í maí í fyrra fóru þaðan tæplega tvær af hverjum þremur flugvélum á réttum tíma en núna var hlutfallið rétt um 72 prósent. Þrátt fyrir bætinguna þá var stundvísin hér lakari en á hinum stóru norrænu flugvöllunum í maí eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Þetta var líka niðurstaðan fyrir apríl sl. Þess má geta að stundvísi flugferða frá Keflavíkurflugvelli var óvenju slök í júní í fyrra þegar rétt um þriðja hver brottför var á tíma. Yfir sumarið þá riðlast dagskrá flugvallanna í hinum löndunum líka oftar sem skrifast einna helst á almennan skort á flugumferðastjórum yfir aðalferðatímabil ársins. Er búist við að það verði jafnframt raunin nú í sumar og þannig hafa farþegar á Kaupmannahafnarflugvelli verið beðnir um að sína biðlund í sumar.