Sala á utanlandsferðum góð þrátt fyrir gott veður

Ný farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir að færri Íslendingar ferðist til útlanda í ár sem skrifast væntanlega á minna framboð á flugsætum. Hið ljúfa veður nú í sumarbyrjun virðist þó ekki hafa dregið úr eftirspurninni eftir ferðum út í heim.

grikkland strond Alex Blajan
Mynd: Alex Blajan / Unsplash

Í sumarbyrjun í fyrra var talað um að landsmenn væru farnir að hamstra sólarlandaferðir enda var veðrið þá, sérstaklega suðvestanlands, ekki sumarlegt. Núna er annað upp á teningnum en eftirspurn eftir utanlandsferðum er engu að síður áfram mikil. „Salan er góð og erfitt að segja hvort gott eða slæmt sumarveður ýti frekar undir ferðalög til útlanda,” segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, í samtali við Túrista. 

Stóri munurinn á stöðunni núna og fyrir ári síðan er hins vegar sá að nú er WOW air horfið af markaðnum og framboðið hefur því dregist saman. Það á til að mynda um beint flug til Tenerife og segir Þórunn að ferðaskrifstofan aðstoði fólki líka að finna hentug tengiflug til eyjunnar vinsælu. Hún bendir líka á að pakkaferðirnar til Kanarí séu oft hagstæðari en þegar farið er til Tenerife. „Þó sólin þar sé sú sama og á Tenerife,” bætir Þórunn við.

Að hennar mati er fólk jafnframt farið að leita meira eftir aðstoð við að skipuleggja ferðalög „Ég held að fólk sé að nota ferðaskrifstofur í auknum mæli og sækja í ráðgjöf fagfólks enda kosta ferðalög oft háar upphæðir. Og þegar margir eru að ferðast saman verður bókunarferlið flóknara. ” Hún bætir því við að það sé líka visst öryggisatriði að bóka í gegnum innlent fyrirtæki í stað þess að fara í gegnum erlenda sölusíðu sem erfitt getur verið að ná í ef eitthvað út af ber.

Með WOW air fór umtalsverður hluti af framboði á flugi frá landinu og segir Þórunn sjá að lausu sætunum til Evrópu hafi fækkað. „Við leggjum því áherslu á að fólk bóki í tíma og hugi að haustferðum fljótlega til að fá hagstæðari kjör.” Hún segir bókanir á vetrarferðum líka komnar á skrið. „Við erum komin með Kanarí, Tenerife og Alicante í sölu fram í mars á næsta ári. Það er nýtt hjá okkur að bjóða upp á Alicante yfir veturinn en sá staður er mjög spennandi kostur fyrir kylfinga á þessum tíma árs.“