Sala á utan­lands­ferðum góð þrátt fyrir gott veður

Ný farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir að færri Íslendingar ferðist til útlanda í ár sem skrifast væntanlega á minna framboð á flugsætum. Hið ljúfa veður nú í sumarbyrjun virðist þó ekki hafa dregið úr eftirspurninni eftir ferðum út í heim.

grikkland strond Alex Blajan
Mynd: Alex Blajan / Unsplash

Í sumar­byrjun í fyrra var talað um að lands­menn væru farnir að hamstra sólar­landa­ferðir enda var veðrið þá, sérstak­lega suðvest­an­lands, ekki sumar­legt. Núna er annað upp á teningnum en eftir­spurn eftir utan­lands­ferðum er engu að síður áfram mikil. „Salan er góð og erfitt að segja hvort gott eða slæmt sumar­veður ýti frekar undir ferðalög til útlanda,” segir Þórunn Reyn­is­dóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, í samtali við Túrista. 

Stóri munurinn á stöð­unni núna og fyrir ári síðan er hins vegar sá að nú er WOW air horfið af mark­aðnum og fram­boðið hefur því dregist saman. Það á til að mynda um beint flug til Tenerife og segir Þórunn að ferða­skrif­stofan aðstoði fólki líka að finna hentug tengiflug til eyjunnar vinsælu. Hún bendir líka á að pakka­ferð­irnar til Kanarí séu oft hagstæðari en þegar farið er til Tenerife. „Þó sólin þar sé sú sama og á Tenerife,” bætir Þórunn við.

Að hennar mati er fólk jafn­framt farið að leita meira eftir aðstoð við að skipu­leggja ferðalög „Ég held að fólk sé að nota ferða­skrif­stofur í auknum mæli og sækja í ráðgjöf fagfólks enda kosta ferðalög oft háar upphæðir. Og þegar margir eru að ferðast saman verður bókun­ar­ferlið flóknara. ” Hún bætir því við að það sé líka visst öryggis­at­riði að bóka í gegnum innlent fyrir­tæki í stað þess að fara í gegnum erlenda sölu­síðu sem erfitt getur verið að ná í ef eitt­hvað út af ber.

Með WOW air fór umtals­verður hluti af fram­boði á flugi frá landinu og segir Þórunn sjá að lausu sætunum til Evrópu hafi fækkað. „Við leggjum því áherslu á að fólk bóki í tíma og hugi að haust­ferðum fljót­lega til að fá hagstæðari kjör.” Hún segir bókanir á vetr­ar­ferðum líka komnar á skrið. „Við erum komin með Kanarí, Tenerife og Alicante í sölu fram í mars á næsta ári. Það er nýtt hjá okkur að bjóða upp á Alicante yfir veturinn en sá staður er mjög spenn­andi kostur fyrir kylf­inga á þessum tíma árs.”