Spá Isavia nærri sanni að mati ferðamálastjóra

Skarphéðinn Berg Steinarsson segir engar vísbendingar um að áhugi á Íslandi hafi minnkað. Það skorti fyrst og fremst flugsæti til landsins.

Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Í lok hvers árs hefur Isavia birt spá sína um fjölda farþega á komandi ári en nú hafa hræringar á flugmarkaði gert það flóknara að horfa fram í tímann. Spá Isavia fyrir þetta ár var til að mynda fyrst birt í janúar en svo hvarf WOW air af sjónarsviðinu nærri tveimur mánuðum síðar. Það munar um minna enda stóð WOW air á tímabili undir nærri þremur af hverjum tíu áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli.

Á föstudag birti Isavia því nýja spá þar sem fram kemur að reiknað er með að um 1,9 milljónir erlendra ferðamanna heimsæki landið í ár eða um fjögur hundruð þúsund færri en í fyrra.

„Ég tel að þessi tala sé nærri sanni. Það skortir fyrst og fremst flugsæti því það er ekkert sem bendir til að áhugi á Íslandi hafi minnkað. Það komast því kannski færri en vilja til landsins,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, um spá Isavia. Skarphéðinn segist gera ráð fyrir að sætaframboð muni aukast aftur. „Þá munum við á ný sjá álíka fjölda ferðamanna og síðustu ár og fjölgunin verði þá eðlileg í framhaldi af því.“

Fjölgun ferðafólks hér á landi hefur verið langt um fram það sem þekkist víðast hvar annars staðar. Um miðjan þennan mánuð verður ferðamannafjöldinn í ár orðin álíka og allt árið 2013. Og ferðamennirnir í ár verða umtalsvert fleiri en árið 2016 gangi spá Isavia eftir. Metárin 2017 og 2018 eru hins vegar sér á parti og til samanburðar má nefna að ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group spáði því haustið 2012 að ferðamenn á Íslandi yrðu rétt um 1,2 milljónir í ár.