Styttist í frest til að klára sölu á hótelum

Nú er rúmt ár liðið frá því að tilkynnt var að hótelrekstur Icelandair Group yrði boðinn til sölu. Málið hefur dregist á langinn en ætlunin er að klára ferlið fyrir lok þessa mánaðar.

Frá Canopy by Hilton í Reykjavík sem Icelandair hótelin reka. Mynd: Icelandair hótelin

Það er ætlunin að selja áttatíu prósent hlut í Icelandair hótelunum fyrir lok þessa ársfjórðungs líkt og fram kom í tilkynningu frá Icelandair samsteypunni í byrjun apríl. Það eru því tæpar fjórar vikur til stefnu en upphaflega var gert ráð fyrir að klára söluferlið fyrir lok nýliðins vetrar. Ekki hefur komið fram hvers vegna ferlið hefur tekið svona langan tíma en gera má ráð fyrir að óróinn í kringum WOW air í vetur og fyrirséður samdráttur í ferðaþjónustunni hafi haft sitt að segja. Fyrstu fjóra mánuði ársins fækkaði gistinóttum útlendinga hér á landi um nærri þrjá af hundraði.

Á annan tug tilboða barst í hótelstarfsemina en sem fyrr segir þá stefnir í að Icelandair Group haldi eftir fimmtungs hlut. Meðeigandinn verður malasíska fjár­fest­inga­fé­lagið Berjaya Corporati­on samkvæmt frétt viðskiptakálfs Morgunblaðsins. Það stefnir því í að áfram verði Icelandair Group með puttana í hótelrekstri en líkt og Túristi hefur áður fjallað um tíðkast það ekki út í heimi að flugfélög séu stórtæk í gistigeiranum. Það hefur Icelandair hins vegar verið um um langt skeið.

Skúli Mogensen haslaði sér einnig völl á þessu sviði í framhaldi af því WOW air komst á skrið fyrir nokkrum árum síðan. Fyrst með opnun Base gistiheimilsins við Keflavíkurflugvöll og eins ætlaði hann að opna hótel í Kópavogi.

Icelandair hótelin reka í dag þrettán gististaði hér á landi eins tilheyra Edduhótelin fyrirtækinu. Bygging nýs hótels við Austurvöll er einnig í eigu Icelandair Group en ekki hefur fengið staðfest hvort það verkefni fylgi með í kaupunum eða ekki.