TF-GAY verður TC-LOL

Þoturnar sem WOW air nýtti til að fljúga fólki til og frá landinum eru nú flestar komnar á leigu til annarra flugfélaga.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested

Breiðþoturnar í flugflota WOW air reyndust félaginu banabiti eins og ítrekað hefur komið fram í máli Skúla Mogensen eftir gjaldþrot flugfélagsins. Félagið rak þrjár Airbus A330 breiðþotur og sú fyrsta kom til landsins í mars árið 2016. Sú fékk heitið TF-GAY og með tilkomu hennar gat WOW air hafið flug til bæði Los Angeles og San Francisco. Þessi sama þota fór svo jómfrúarferð WOW air til Nýju-Delí á Indlandi í desember í fyrra.

Indlandsflugi WOW air og áætlunarferðunum til Kaliforníu var hins vegar sjálfhætt í ársbyrjun þegar WOW air ákvað að skila breiðþotunum þremur sem félagið hafði þá í rekstri. TF-GAY var sú síðasta til að halda af landi brott en það er fyrst núna, rúmum fjórum mánuðum síðar, sem hún kemst í loftið á ný því samkvæmt vefritinu Simply Flying hefur Turkish Airlines tekið hana á leigu. Þar hefur hún fengið skráninganafnið TC-LOL en ekki fer sögum af því hvort þar sé sótt í netslangrið „Laughing Out Loud“ eða „hlæja upp hátt“. Það væri sennilega viðeigandi enda höfðu stjórnendur WOW air þann háttinn á að velja þriggja stafa skráninganöfn sem stóðu fyrir eitthvað, t.d. TF-MOM og TF-SON.