Þriggja millj­arða tap á ferða­skrif­stofum Arion banka

Gjaldþrot Primera Air reyndist ferðasamsteypu Andra Más Ingólfssonar þungt högg. Tapið af rekstrinum var mikið í fyrra og nú munu íslensku ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Terra Nova hafa verið seldar.

Ein af þotum Primera Air. Mynd: London Stansted

Nokkrum dögum eftir fall Primera Air flug­fé­lagsins, í byrjun október í fyrra, voru allar þær sjö norrænu ferða­skrif­stofur, sem tilheyrðu ferða­skrif­stofu­veldi Andra Más Ingólfs­sonar, færðar frá íslensku móður­fé­lagi og yfir í danskt fyrir­tæki, Travelco Nordic. Það félag hafði áður aðeins haldið utan um ferða­skrif­stof­urnar sem fyrir­tækið á í Danmörku og Svíþjóð.  Arion banki tók hið nýja danska móður­félag yfir í síðustu viku og er ætlunin að selja samsteyptuna sem fyrst. Nýbirtur ársreikn­ingur leiðir hins vegar í ljós að staða félagsins er veru­lega þung.

Travelco Nordic tapaði nefni­lega 156 millj­ónum danskra króna í fyrra eða sem nemur um þremur millj­örðum króna. Í grein­ar­gerð endur­skoð­anda, sem fylgir reikn­ingnum, segir að ekki sé tryggt að fyrir­tækið hafi nægt lausafé til að komast í gegnum árið í ár. Þetta kemur fram í frétt danska ferða­ritsins Standby nú í morgun en þar segir jafn­framt að Arion banki hafi styrkt lausa­fjár­stöðuna í tengslum við yfir­tökuna í síðustu viku.

Danski endur­skoð­andinn setur þó einnig spurn­inga­merki við gríð­ar­lega hækkun á viðskipta­vild Travelco Nordic. Hún var hækkuð úr rúmum 16 millj­ónum íslenskra króna í 910 millj­ónir í fyrra og líklegast til að tryggja félaginu jákvætt eigið fé. Það nam í lok síðasta árs rétt um 270 millj­ónum króna og hefur þá, í íslenskum krónum talið, lækkað um nærri milljarð frá árinu 2017.

Íslensku ferða­skrif­stof­urnar Heims­ferðir og Terra Nova hafa tilheyrt Travelco Nordic eftir eigna­til­færsluna frá Íslandi til Danmerkur í fyrra. Í frétt Standby segir hins vegar að í ársreikn­ingi komi fram að íslensku ferð­skrif­stof­urnar tvær hafi nú í júní verið seldar út úr danska móður­fé­laginu fyrir um um 1,1 milljarð króna. Samkvæmt upplýs­ingum frá Arion banka þá voru íslensku félögin aðskilin frá starf­semi félag­anna sem starfa á hinum Norð­ur­lönd­unum. Arion banki er áfram endan­legur eigandi ferða­skrif­stof­anna sjö.

Heims­ferðir hafa lengi verið ein stærsta ferða­skrif­stofa landsins og Terra Nova er umsvifa­mikil í skipu­lagn­ingu á Íslands­ferðum.

-
Fréttin var uppfærð eftir að svör bárust frá Arion banka um sölu á íslensku ferða­skrif­stof­unum, Heims­ferðum og Terra Nova, út úr Travelco Nordic.