Þriggja milljarða tap á ferðaskrifstofum Arion banka

Gjaldþrot Primera Air reyndist ferðasamsteypu Andra Más Ingólfssonar þungt högg. Tapið af rekstrinum var mikið í fyrra og nú munu íslensku ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Terra Nova hafa verið seldar.

Ein af þotum Primera Air. Mynd: London Stansted

Nokkrum dögum eftir fall Primera Air flugfélagsins, í byrjun október í fyrra, voru allar þær sjö norrænu ferðaskrifstofur, sem tilheyrðu ferðaskrifstofuveldi Andra Más Ingólfssonar, færðar frá íslensku móðurfélagi og yfir í danskt fyrirtæki, Travelco Nordic. Það félag hafði áður aðeins haldið utan um ferðaskrifstofurnar sem fyrirtækið á í Danmörku og Svíþjóð.  Arion banki tók hið nýja danska móðurfélag yfir í síðustu viku og er ætlunin að selja samsteyptuna sem fyrst. Nýbirtur ársreikningur leiðir hins vegar í ljós að staða félagsins er verulega þung.

Travelco Nordic tapaði nefnilega 156 milljónum danskra króna í fyrra eða sem nemur um þremur milljörðum króna. Í greinargerð endurskoðanda, sem fylgir reikningnum, segir að ekki sé tryggt að fyrirtækið hafi nægt lausafé til að komast í gegnum árið í ár. Þetta kemur fram í frétt danska ferðaritsins Standby nú í morgun en þar segir jafnframt að Arion banki hafi styrkt lausafjárstöðuna í tengslum við yfirtökuna í síðustu viku.

Danski endurskoðandinn setur þó einnig spurningamerki við gríðarlega hækkun á viðskiptavild Travelco Nordic. Hún var hækkuð úr rúmum 16 milljónum íslenskra króna í 910 milljónir í fyrra og líklegast til að tryggja félaginu jákvætt eigið fé. Það nam í lok síðasta árs rétt um 270 milljónum króna og hefur þá, í íslenskum krónum talið, lækkað um nærri milljarð frá árinu 2017.

Íslensku ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Terra Nova hafa tilheyrt Travelco Nordic eftir eignatilfærsluna frá Íslandi til Danmerkur í fyrra. Í frétt Standby segir hins vegar að í ársreikningi komi fram að íslensku ferðskrifstofurnar tvær hafi nú í júní verið seldar út úr danska móðurfélaginu fyrir um um 1,1 milljarð króna. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka þá voru íslensku félögin aðskilin frá starfsemi félaganna sem starfa á hinum Norðurlöndunum. Arion banki er áfram endanlegur eigandi ferðaskrifstofanna sjö.

Heimsferðir hafa lengi verið ein stærsta ferðaskrifstofa landsins og Terra Nova er umsvifamikil í skipulagningu á Íslandsferðum.


Fréttin var uppfærð eftir að svör bárust frá Arion banka um sölu á íslensku ferðaskrifstofunum, Heimsferðum og Terra Nova, út úr Travelco Nordic.