Þú kemst ódýrt til Spánar seinnipartinn í dag

Ef þú getur látið þig hverfa í nokkra daga þá bjóðast ódýrar pakkaferðir núna fyrir fjölskyldur.

Mynd: Matthew Kane / Unsplash

Vikuferð í sólina á Spáni þar sem flug og hótel er innifalið kostar vanalega á annað hundrað þúsund krónur. Þeir sem geta flogið út með mjög stuttum fyrirvara geta þó fengið vikuferð til Spánar fyrir töluvert minna en þá þarf að hafa hraðar hendur því þotan fer í loftið klukkan fjögur í dag. Um er að ræða tilboð á vegum ferðaskrifstofunnar Úrval-Útsýn en þar er núna hægt að bóka fjögurra daga ferð til Alicante á 48.900 krónur á mann ef fjölskylda deilir herbergi. Og vikuferð til Albír er á 65.900 fyrir fjölskyldu.

Samkvæmt lauslegri athugun Túrista er ekki að finna álíka tilboð á heimasíðu Heimsferða og Vita í dag en aftur á móti er þónokkuð um tilboð á sólarlandaferðum næstu daga. Skýringin á því kann að vera hið góða sumarveður á stórum hluta landsins nú í byrjun júní.

Þeir sem vilja heldur fljúga til Mið-Evrópu í dag eða morgun þá er ódýrasta farið sennilega til Vínar en þangað má komast á morgun með Wizz Air fyrir 9800 kr., aðra leið.