Verð á gistingu hefur lækkað töluvert

Fara þarf aftur til maí árið 2014 til að finna meiri verðlækkun í krónum talið á verðskrám hótel og gisthúsa samkvæmt samantekt Landsbankans. Vísbendingar eru um að verðið hafi áfram farið niður í júní.

hotelrum nik lanus
Mynd: Nik Ianus / Unsplash

Verð á þjónustu hótela og gistiheimila hér á landi hefur lækkað töluvert miðað við síðasta ár hvort sem mælt er í krónum eða evrum. Lækkunin hefur þó reynst nokkuð meiri í evrum sökum þeirrar veikingar sem orðið hefur á krónunni frá því í fyrra. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans og draga sérfræðingar bankans þá ályktun að verri herbergjanýting hafi sett þrýsting á verðskrá hótela.

Verðlækkunin í nýliðnum maí, mæld í evrum, nam 21,9 prósentum samanborið saman við sama tímabil í fyrra. Er þá horft á liðinn „þjónusta hótela og gistiheimila“ sem er einn af undirliðum neysluverðsvísitölunnar. „Þetta er mesta verðlækkun á tólf mánaða grundvelli í evrum síðan í maí 2009. Verðlækkunin í krónum nam 12,4 prósent en fara þarf aftur til maí 2014 til að finna meiri verðlækkun í krónum. Sé horft á mælinguna í evrum var þetta níundi mánuðurinn í röð þar sem verðið lækkar frá sama mánuði árið áður,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Vísbendingar eru um að hótelverð hafi áfram farið lækkandi nú í sumarbyrjun því samkvæmt samantekt hótelbókunarsíðunnar Trivago þá kostaði hefðbundið tveggja manna herbergi á reykvísku hóteli 146 evrur nú í júní eða tæpar 20.600 krónur. Það er 18 prósent lægra verð, í evrum talið, en á sama tíma í fyrra.