57 flugferðir í viku hverri til London

Í vetur dregur þónokkuð úr flugi héðan til bresku höfuðborgarinnar og nú verður flogið til þriggja flugvalla í nágrenni við borgina í stað fimm.

british airways londoncity
Íslandsflug frá London City flugvelli hefur verið lagt niður. Myndir: British Airways / London City

London hefur verið sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli og eru ferðirnar vanalega flestar yfir háveturinn þegar breskir ferðamenn eru hér flestir. Þannig komu um fjórum sinnum fleiri Bretar hingað til lands í febrúar í ár en í júní samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Í febrúar voru samtals farnar 75 áætlunarferðir í viku hingað frá fimm mismunandi flugvöllum á Lundúnarsvæðinu. Í ár stefnir í 57 ferðir frá þremur flugvöllum samkvæmt talningu Túrista.

Á þessu geta ennþá orðið breytingar og til marks um það þá var upphaflega gert ráð fyrir 82 ferðum í viku hingað frá London síðastliðinn febrúar en svo hætti Norwegian við vetrarflug hingað frá Gatwick flugvelli og ekkert var af daglegum brottförum Wizz Air frá Luton. Þotur þessa ungverska lággjaldaflugfélagsins flugu í staðinn hingað fjórum sinnum í viku.

Á tímabili voru áform hjá Wizz Air um daglegar ferðir hingað frá London á komandi vetri en af því verður ekki. Og nú hafa stjórnendur British Airways einnig gert breytingar á sinni vetraráætlun líkt og sagt var fyrst frá á vef Routes Online. Þar segir að vetrardagskrá British Airways geri ráð fyrir sjö brottförum í viku til Íslands frá Heathrow í stað ellefu. Þessu til viðbótar hefur breska flugfélagið lagt niður flug hingað frá London City. Í svari við fyrirspurn Túrista segir að British Airways fjölgi ferðum til vinsælustu áfangastaðanna frá þeim flugvelli á kostnað Íslandsflugsins.

Þar með geta farþegar sem fara um London City ekki lengur flogið beint hingað til lands og það munu farþegar á Stansted flugvelli ekki heldur geta því líkt og Túristi hefur áður greint frá þá hefur easyJet lagt niður allt Íslandsflug þaðan. WOW air hugðist koma sér fyrir á þeim flugvelli eftir að hafa selt afgreiðslutíma sína á Gatwick flugvelli.

En eins og staðan er núna þá geta þeir sem ætla að fljúga milli London og Íslands í vetur valið á milli 57 áætlunarferða í viku þegar umferðin nær hámarki í vetur. Það er álíka ferðafjöldi og fyrir fjórum árum síðan.