Ætla að selja sólarlandaferðir frá Íslandi

Samhliða auknu Spánarflugi þá ætlar norska lággjaldaflugfélagið Norwegian jafnframt að bjóða upp á flug og hótel í einum pakka.

Mynd: Ferðamálaráð Tenerife

Norwegian er það flugfélag sem flytur flesta farþega milli Íslands og Spánar en félagið býður í dag upp á reglulegar ferðir héðan til Barcelona, Madríd og Alicante. Í byrjun vetrar bætast svo áætlunarferðir til Kanarí og Tenerife og þar með aukast umsvifin umtalsvert. Á sama tíma liggur ekki fyrir hvernig Icelandair ætlar að snúa sér í boðaðri sókn sinni inn á sólarlandamarkaðinn og því útlit fyrir að forskot norska flugfélagsins í farþegaflutningum héðan til Spánar aukist töluvert í vetur.

Það er ekki bara frá Íslandi sem Norwegian er stórtækt í Spánarflugi því íbúar hinna Norðurlandanna geta líka keypt sér far með félaginu til ófárra spænskra áfangastaða. Og reyndar geta Svíar, Norðmenn og Danir líka keypt flug og hótel í einum pakka í gegnum ferðaskrifstofu flugfélagsins, Norwegian Holidays. Aðspurð um hvort þess háttar verði líka í boði fyrir íslenska farþega þá segir Astrid Mannion-Gibson, talskona Norwegian, að þess háttar sé í bígerð þegar ferðunum fjölgar í haust og vetur. „Þá munum við að sjálfsögðu selja pakkaferðir frá Íslandi.“

Bæði Heimsferðir og Úrval-Útsýn ætla að fljúga hluta af viðskiptavinum sínum til Kanarí og Tenerife í vetur með Norwegian en ferðaskrifstofurnar fá þá samkeppni frá flugfélaginu sjálfu þegar kemur að sölu á sólarlandaferðum með flugi og gistingu. Þess háttar samkeppni ríkir vissulega líka á hinum Norðurlöndunum þar sem Norwegian flýgur farþegum norrænna ferðaskrifstofa í sólina. Til að mynda viðskiptavinum Travelco Nordic sem rekur fimm ferðaskrifstofur á Norðurlöndunum og er nú í eigu Arion banka en tilheyrðu áður ferðaskrifstofuveldi Andra Más Ingólfssonar.

Hér líkt og í nágrannalöndunum verða fyrirtæki sem selja pakkaferðir að vera með sérstakar opinbera skyldutryggingu. Af heimasíðu Norwegian Holidays að dæma þá gerir fyrirtækið út frá Svíþjóð og borgar tryggingar til Kammarkollegiet þar í landi. Sú stofnun heldur utan um skyldutryggingar ferðasala í Svíþjóð líkt og Ferðamálastofa gerir hér heima. Hvort Norwegian Holidays geti nýtt sama fyrirkomulag þegar kemur að sölu pakkaferða hér á landi gæti verið atriði sem samkeppnisaðilarnir munu láta á reyna.