Ætla að selja sólar­landa­ferðir frá Íslandi

Samhliða auknu Spánarflugi þá ætlar norska lággjaldaflugfélagið Norwegian jafnframt að bjóða upp á flug og hótel í einum pakka.

Mynd: Ferðamálaráð Tenerife

Norwegian er það flug­félag sem flytur flesta farþega milli Íslands og Spánar en félagið býður í dag upp á reglu­legar ferðir héðan til Barcelona, Madríd og Alicante. Í byrjun vetrar bætast svo áætl­un­ar­ferðir til Kanarí og Tenerife og þar með aukast umsvifin umtals­vert. Á sama tíma liggur ekki fyrir hvernig Icelandair ætlar að snúa sér í boðaðri sókn sinni inn á sólar­landa­mark­aðinn og því útlit fyrir að forskot norska flug­fé­lagsins í farþega­flutn­ingum héðan til Spánar aukist tölu­vert í vetur.

Það er ekki bara frá Íslandi sem Norwegian er stór­tækt í Spán­ar­flugi því íbúar hinna Norð­ur­land­anna geta líka keypt sér far með félaginu til ófárra spænskra áfanga­staða. Og reyndar geta Svíar, Norð­menn og Danir líka keypt flug og hótel í einum pakka í gegnum ferða­skrif­stofu flug­fé­lagsins, Norwegian Holi­days. Aðspurð um hvort þess háttar verði líka í boði fyrir íslenska farþega þá segir Astrid Mannion-Gibson, talskona Norwegian, að þess háttar sé í bígerð þegar ferð­unum fjölgar í haust og vetur. „Þá munum við að sjálf­sögðu selja pakka­ferðir frá Íslandi.”

Bæði Heims­ferðir og Úrval-Útsýn ætla að fljúga hluta af viðskipta­vinum sínum til Kanarí og Tenerife í vetur með Norwegian en ferða­skrif­stof­urnar fá þá samkeppni frá flug­fé­laginu sjálfu þegar kemur að sölu á sólar­landa­ferðum með flugi og gist­ingu. Þess háttar samkeppni ríkir vissu­lega líka á hinum Norð­ur­lönd­unum þar sem Norwegian flýgur farþegum norrænna ferða­skrif­stofa í sólina. Til að mynda viðskipta­vinum Travelco Nordic sem rekur fimm ferða­skrif­stofur á Norð­ur­lönd­unum og er nú í eigu Arion banka en tilheyrðu áður ferða­skrif­stofu­veldi Andra Más Ingólfs­sonar.

Hér líkt og í nágranna­lönd­unum verða fyrir­tæki sem selja pakka­ferðir að vera með sérstakar opin­bera skyldu­trygg­ingu. Af heima­síðu Norwegian Holi­days að dæma þá gerir fyrir­tækið út frá Svíþjóð og borgar trygg­ingar til Kammar­koll­egiet þar í landi. Sú stofnun heldur utan um skyldu­trygg­ingar ferða­sala í Svíþjóð líkt og Ferða­mála­stofa gerir hér heima. Hvort Norwegian Holi­days geti nýtt sama fyrir­komulag þegar kemur að sölu pakka­ferða hér á landi gæti verið atriði sem samkeppn­is­að­il­arnir munu láta á reyna.