Allt opið á Kefla­vík­ur­flug­velli fyrir nýtt flug­félag

Áform eru uppi um að stofna nýtt flugfélag sem byggir að einhverju leyti á grunni WOW air. Í dag eru komu- og brottfarartímar forverans á Keflavíkurflugvelli flestir ónýttir. Lán frá íslenskum banka mun vera ein af forsendum þess að verkefnið verði að veruleika.

Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Nú eru fimmtán vikur liðnar frá því að WOW air varð gjald­þrota og það skarð sem félagið skyldi eftir sig er að mestu ófyllt. Flug­um­ferð frá Kefla­vík­ur­flug­velli hefur dregist veru­lega saman og helstu brott­far­ar­tímar WOW air á vell­inum er ennþá lausir. Vonir sumra um að erlend flug­félög myndu auka Íslands­flug sitt í kjölfar falls WOW hafa ekki gengið eftir nema að litlu leyti. Delta og easyJet hafa meira að segja skorið niður áætl­un­ar­flug hingað í vetur.

Á sama tíma hafa stjórn­endur Icelandair ekki getað nýtt sér þau tæki­færi sem opnuðust með brott­hvarfi helsta keppi­naut­arins. Engir nýir áfanga­staðir hafa verið kynntir og tíðni ferða til annarra staða óbreytt ef frá er talin ein auka­ferð í viku til Alicante. Þvert á móti hefur Icelandair þurft að skera niður sumaráætlun sína vegna kyrr­setn­ingar á Boeing MAX þotunum sem sett var á um miðjan mars. Ekki liggur fyrir hvenær flug­vél­arnar fá flug­heimild á ný en í gær tilkynnti Icelandair að fella yrði niður ferðir fram í lok október vegna ástandsins. Þá lýkur sumaráætlun flug­fé­lag­anna form­lega og um leið fækkar þotum erlendra flug­fé­laga við Flug­stöð Leifs Eiríks­sonar.

Hversu mikill samdrátt­urinn verður í fluginu í vetur liggur ekki fyrir en í byrjun næstu viku verða flug­félög að stað­festa umsóknir sínar um afgreiðslu­tíma á Kefla­vík­ur­flug­velli frá lokum október og fram í enda mars. Sú vetr­aráætlun sem Isavia tilkynnir vænt­an­lega í kjöl­farið gæti þó tekið umtals­verðum breyt­ingum því nú mun írskur fjár­fest­inga­sjóður, í félagi við tvo af fyrrum stjórn­endum WOW air, sjá tæki­færi í að stofna nýtt lággjalda­flug­félag hér á landi. Samkvæmt frétt Frétta­blaðsins er ætlunin að reka sex flug­vélar til að byrja með og fljúga til sextán áfanga­staða bæði Norður-Ameríku og Evrópu. Til saman­burðar bauð WOW air til sextán áfanga­staða í álfunum tveimur í mars síðast­liðnum. Ekki kemur fram hvaða áfanga­staði nýtt flug­félag stefnir á en það gæti reynst torsótt að fá tíma á vinsælum flug­völlum eins og Amsterdam, Frankfurt, Gatwick og í New York.

Írski fjár­fest­inga­sjóð­urinn, sem er í eigu eins af afkom­endum stofn­enda Ryanair flug­fé­lagsins, hyggst leggja rúma fimm millj­arða verk­efnið gegn 75 prósent hlut í flug­fé­laginu. Fjórir Íslend­ingar, þar af tveir af fyrr­ver­andi yfir­mönnum WOW air, myndu eiga fjórð­ungs hlut á móti fjár­fest­inga­fé­laginu. Samkvæmt heim­ildum Frétta­blaðsins hefur  fjár­festa­hóp­urinn biðlað til að minnsta kosti tveggja banka, Arion banka og Lands­bankans, um nærri fjög­urra millj­arða króna lán í eitt ár.

Arion banki hefur komið illa út úr lánveit­ingum til flugrek­enda undan­farið og tapaði bankinn nokkrum millj­örðum króna í vetur á gjald­þrotum Primera Air og WOW air. Hjá Lands­bank­unum tók Icelandair svo um 10 millj­arða króna lán, til fimm ára, í mars síðast­liðnum.

Að hinu nýja íslenska flug­fé­lagi kemur ráðgjafa­fyr­ir­tækið Irelandia Aviation sem er í eigu eins af stofn­endum Ryanair flug­fé­lagsins. Tengsl verk­efns­isins við þetta stærsta lággjalda­flug­félag Evrópu eru því tölu­verð en Irelandia Aviation hefur líka komið að rekstri lággjalda­flug­fé­laga vest­an­hafs og í Asíu sem öll eru kennd við svokallaða últra lággjalda­stefnu þar sem farþegar borga auka­lega fyrir næstum allt nema farmiðann sjálfan. Á sama hátt eru verk­taka­samn­ingar við flugliða algengir, þess háttar tíðkast til að mynda hjá Ryanair.

Skúli Mogensen, einn af stofn­endum WOW og forstjóri þess, mun ekki koma að hinu nýja íslenska flug­fé­lagi samkvæmt frétt RÚV. Skipta­stjóri þrotabús WOW air sagði í samtali við Vísi í gær að búið væri að selja verð­mæt­ustu eignir flug­fé­lagsins og kaup­endur væru ekki þeir sem nú vinna að stofnun hins nýja flug­fé­lags sem hlotið hefur vinnu­heitið WAB.