Biðin eftir MAX þotunum geti dregist fram til áramóta

Stjórnendur Icelandair gætu þurft að hefja veturinn án þess að vera með Boeing MAX þotur í rekstri.

MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

Icelandair gerði í sumarbyrjun breytingar á flugáætlun sinni fram í miðjan september vegna kyrrsetningar á Boeing MAX-þotum sem sett var á um miðjan mars eftir tvö mannskæð flugslys. Vonir hafa verið bundnar við að flugvélar af þessari gerð fái fljótt að taka á loft á ný en eftir að mögulegur nýr galli uppgötvaðist í stýrikerfi flugvélanna í síðustu viku þá hefur útlitið versnað til muna. Nú er fyrst gert ráð fyrir að sérfræðingar Boeing ljúki við breytingar á hugbúnaði vélanna í september. Fyrst þá munu flugmálayfirvöld í hverju landi fyrir sig geta hafið sitt vottunarferli og þar með gæti það dregist fram til áramóta að aflétta kyrrsetningu þotanna samkvæmt frétt CNN.

Stjórnendur flugfélaga eru því farnir að gera ráðstafanir og fyrir helgi tilkynnti Southwest flugfélagið að áætlun félagsins yrði breytt fram í október til að koma í veg fyrir óþægindi hjá farþegum ef aflýsa þyrfti mörgum flugferðum vegna skorts á farþegaþotum. Hjá Turkish Airlines var skrefið ennþá stærra því þar á bæ er ekki reiknað með neinum Boeing MAX þotum í vetraráætlun félagsins.

Hvort fleiri flugfélög bregðist við með svipuðum hætti kemur væntanlega í ljós á næstu dögum. Núverandi sumaráætlun Icelandair gerði ráð fyrir að félagið hefði níu MAX þotur til ráðstöfunnar og leigði félagið fjórar þotur til að brúa bilið. Leigutími þeirra flestra rennur út í september en þá fækkar líka flugferðum Icelandair sem vegur upp á móti flugvélaskorti. Hins vegar getur félagið þó ósennilega fyllt sum þeirra skarða sem WOW air skildi eftir sig á markaðnum, t.d. í áætlunarferðum til sólarlanda en norska flugfélagið Norwegian ætlar sér stóra hluti þar.